Fyrsti skráði barnakennari á Eskifirði er Guðrún Jónsdóttir Arnesen, sem kom frá Kaupmannahöfn árið 1874.  Hún bjó og kenndi í Svartaskóla (Gamlaskóla) 1875 - 1883.  Um var að ræða annan kvennaskóla á landinu.

Fyrsti undirbúningur að skólastofnun á Eskifirði var þjóðhátíðarárið 1874, tilgangurinn var að stofna barnaskóla og byggja skólahús.  Fé til þessa var safnað með samskotum og haldnar voru skemmtanir, sú fyrsta þjóðhátíðardaginn 2. ágúst 1877 þar sem m.a. var tombóla og lotterí. Nánar um skemmtun þess hér.

Skólahúsið (Víðivellir) var reist árið 1882 og var yfirsmiður þess Guðni Jónsson snikkari á Grund.  Fyrsti mannfagnaður þar var ball sem haldið var 29. desember en þá var ýmsu ólokið.

Á árunum 1887-1892 lá skólahald niðri. Ástæða þess var annars vegar sú að ósamlyndi var á  milli kaupstaðar- og hreppsbúa og hins vegar að rekstur skólans var of þung byrði fyrir sveitafélagið.  Einnig fór efnahagur manna versnandi svo fátt var um börn sem send voru í skóla.  Á þessum árum sinntu hinir ýmsu menn heimiliskennslu.

Skólinn var starfræktur frá 1892 til ársins 1907 en það sumar varð Eskifjörður sérstakt hreppsfélag.  Við það missti skólinn sitt gamla húsnæði og varð um haustið að leigja Antonshús 1908 - 1909.  Skólahald var óðum að breytast og árið 1908 gengu í gildi ný fræðslulög.  Um þær mundir var keyptur búnaður til skólans fyrir um 200 krónur.   Þá voru laun 1. kennara eða skólastjóra 75 krónur á mánuði, en laun annarra kennara um 400 krónur á ári. Eskfirðingar ákveða fljótlega að byggja sér nýtt skólahús sem fullnægði kröfum tímans.  Reynt var að selja gamla skólahúsnæðið (Víðivelli) og var það loks selt fyrir 1200 kr.  Mikið var rætt og ritað um gerð og byggingu nýja skólans, hvar ætti að fá peninga og efnivið til byggingarinnar.  Fjárveitingar til skólans komu frá bæjarfélaginu, landssjóði (ríkissjóði) og einnig var um að ræða framlög fyrirtækja og einstaklinga.

Á árunum 1909 - 1910 var skólahald í þremur stöðum í bænum þ.e. í Framkaupstað, Antonshúsi og Bjarnahúsi (Tómasarhúsi).

Eftir mitt sumar 1910 var byrjað á nýrri skólabyggingu á Klifinu. Jóhannes Reykdal frá Hafnarfirði var fenginn sem yfirsmiður skólans.  Þessi Jóhannes reisti trésmíðavinnustofuna Dverg í Hafnarfirði 1903 og fyrsti maðurinn á Íslandi til að setja upp vatnsknúna rafstöð þar í bæ, hina fyrstu á Íslandi eða árið 1905.  Þann 31. maí 1910 var moldarvinnu lokið og grunnur gerður að skólanum.  23. júlí skyldi útvega steinlím eða sement svo hægt væri að steypa upp grunninn. Skóli var settur þar þann 4. nóvember 1910 og verkið tekið út 1. desember árið 1910.  Talið er að bygging skólans hafi ekki tekið nema 5 mánuði í allt og mun hann hafa kostað um 11.500 krónur fullbúinn.

Fyrsti skólastjóri þessa nýja skóla var Gunnar Gunnarsson og fyrsti gymnastikkennari eða íþróttakennari var Magnús Arngrímsson, afi Magnúsar Péturssonar rafveitustjóra.  Þar sem hann hafði lært leikfimi hjá Axel Tuliníus sýslumanni voru allar leikfimiskipanir hans á dönsku sem sé hermannaleikfimi: Gå, til högre, til venstre, hænder op, hænder ned, stå.

40 nemendur voru í skólanum þetta fyrsta skólaár, 18 í efrideild og 22 í neðrideild. Námsgreinar voru  svipaðar þá og nú þ.e. réttritun, bókmenntir, lestur, reikningur, skrift, danska, náttúrufræði, söngur, kverið, biblíusögur, íþróttir, landafræði, teikning, íslandssaga og landafræði.  Skólaárið byrjaði í þá daga venjulegast þann 1. október og var lokið 15. maí eða alls í  sjö og hálfan mánuð.

Gamli skólinn á Klifinu gegndi ýmiss konar hlutverki. Auk þess að vera fræðslumiðstöð unga fólksins á staðnum voru einnig sýndar þar leiksýningar, bíósýningar lúðrasveitin æfði þar, spilakvöld voru haldin, tombóla og fundir.  Lengi vel var bókasafnið þar til húsa og félagsheimilið Knellan var þar til margra ára.  Það hýsti einnig safnaðarheimili, tónlistarskóla, byggðarsögunefnd og nú síðast hefur húsið hýst Veraldarvini sem koma hérna á vorin til að skreyta og fegra bæinn.  Árið 2013 tóku Veraldavinir húsið í fóstur og eru áform um að endurbæta það töluvert.

Sigurður Vigfússon starfrækti unglingaskóla á loftinu í Bakaríinu á árunum 1915 - 1916.

Richard Beck starfrækti unglingaskóla í Jóhannshúsi á árunum 1920 - 1921.

Jón S. Björnsson var með unglingaskóla í Laufási 1922-1923

Arnfinnur Jónsson fékk leyfi skólanefndar að hafa unglingaskóla þegar barnakennsla væri úti frá 1924 til 1933. Unglingaskólinn var frá nóvember til mars. 

Unglingaskóli hófst aftur undir stjórn Sigurbjörns Ketilssonar árið 1937 og hefur verið samfellt síðan.

Einkabarnaskólinn á Eskifirði sem kallaður var Svartiskóli var rekinn í Laufási skólaárið 1933-1934.  Ástæða þess að þessi skóli var stofnaður var ósætti nokkra aðila í samfélaginu gagnvart Arnfinni Jónssyni skólastjóra.  Ekki var hægt að reka skólann nema þetta eina ár.  Hér má lesa skemmtilega grein um þetta mál.

Byrjað var á byggingu skólans sem nú er kennt í árið 1974 - 1975.  Árið 1983 var byrjað að kenna á neðstu hæð hússins.  Flutt var úr gamla skólanum þann 8. janúar árið 1985, þann dag var skrúðganga en kennsla byrjaði 9. janúar.  Efsta hæð hússins var síðan tekin í notkun í september árið 1985 og þá var jafnframt bókasöfn skólans og bæjarins sameinuð.

Árið 1998 hófst vinna við að stækka skólann og árið 2003 var byrjað að byggja sér kennaraálmu við hann.  Stækkun skólans lauk árið 2005 og er þá orðinn heilir 3783,5 m2 að stærð, brúttó

Skólastjórar á Eskifirði frá árinu 1910, til dagsins í dag hafa verið sem hér má sjá.

Gunnar Gunnarsson 1910 – 1915
Kristmann Runólfsson 1915 – 1918
Jón Valdimarsson 1918 – 1923
Arnfinnur Jónsson 1923 – 1939
Skúli Þorsteinsson 1939 – 1955
Ragnar Andrés Þorsteinsson  afleysingar 1955 – 1956
Skúli Þorsteinsson 1956 – 1957
Kristján Ingólfsson 1957 – 1969
Ellert Borgar Þorvaldsson 1969 – 1972
Séra Sigurður H. Guðmundsson 1972 – 1973
Trausti Björnsson 1973 – 1982
Jón Ingi Einarsson 1982 – 31.12.1993
Hilmar Hilmarsson 1.1. 1994 – 1996
Hilmar Sigurjónsson 1996 – 2007
Þórhallur Þorvaldsson afleysingar 2007 – 2008
Hilmar Sigurjónsson 2008 –

                                                                 

 

 

 

Melbær, Valhöll

Sundlaugin, Íþróttahúsið

Tónlistarskólinn (Valhöll, Barnaskóli, Læknahús, Grunnskólinn)

Verkmenntaskóli ca. 196? (Barnaskólinn)

Vélstjórnarskóli (Valhöll)