Þróun mannfjölda

Frá aldamótum og fram til 1930 fjölgaði íbúum á Eskifirði ört.  Árið 1910 voru íbúar Eskifjarðar 425 en tíu árum síðar töldust þeir vera 616.  Um 1930 voru Eskfirðingar um 750 talsins.  Upp úr 1930 kom kreppan og tímabil óstöðuleika í atvinnulífinu á Eskifirði, svo sem víða annars staðar.   Fólksfækkun fylgdi í kjölfarið, og það var ekki fyrr en 1960 að Eskifjörður endurheimti sömu íbúatölu og verið hafði í þrjátíu árum fyrr.

Tölur fengnar frá Hagstofu Íslands.

Sjöundi áratugurinn varð tímabil grósku og vaxtar á Eskifirði, og fjölgaði íbúum jafnt og þétt.  Voru þeir 936 árið 1970.

Fram til 1980 fjölgaði fólki flest ár, en fækkaði 1972, 1977 og 1980, en það ár voru Eskfirðingar 1.043 talsins.  Þróunin var því til muna hægari en áratuginn á undan, og má sjá þetta glöggt í ljósi þeirra atburða í atvinnusögu bæjarins.

Þann 1. desember 1987 voru íbúar Eskifjarðar 1.067, sem er nánast sami íbúafjöldi og árið 1979.  Það virðist því vera svo, að þróun 7. og 8. áratugarins hafi stöðvast að sinni.  Til að skýra nánar hreyfingar á íbúafjölda og samsetningu hans, skulum við athuga árin 1971-1987:

Á þessu tímabili fluttu 781 manns til Eskifjarðar, en burt fluttu 863.  Nettó-brottflutningur var því 82 manns, eða 7.9 % mannfjöldans.  Á þessum sextán árum var því eiginleg fjölgun, þ.e. fæddir umfram dána, samtals 214, en þar sem fleiri flytja brott en þeir sem koma annars staðar að, verður fólksfjölgunin á þessu tímabili einungis 132 einstaklingar.  Sé skoðaður seinni helmingur þessa 16 ára tímabils, lítur dæmið mun verr út, því þá nemur nettó brottflutningur fólks 90 % af tölu fæddra umfram dána.

Það er rétt að benda á, að komi lengri tímabil þar sem eiginleg fólksfjölgun hefur ekki undan brottflutningum, hefur það svipuð áhrif og fækkum fæðinga eða minnkandi frjósemi, því það fólk sem öðrum fremur er á faraldsfæti í landinu er ungt fólk á besta barneignaaldri og börn þeirra.  Áhrifin verða hækkandi meðalaldur samfélagsins, sem aftur getur haft víðtækar félagslegar afleiðingar.  Á hinn bóginn hefur það gagnstæð áhrif, snúist flutningsdæmið við.  Það stuðlar að lægri meðalaldri í heild og hærra hlutfalli ungs fólks á hagstæðasta barneignaaldri.

Um aldamótin var mjög mikil fólksfækkun vegna atvinnuástands m.a.  En árið 2002 var ákveðið að reisa álver Alcoa við Reyðarfjörð á landi Hrauns.  Við þá frétt hefur komið uppsveifla í mannfjölda og í dag er hún enn í gangi.  Vonandi að hún haldi áfram.

 

Ágrip af skipulagssögu

Árin 1923-24 var Eskifjarðarkauptún mælt upp og kortlagt.  Það verk annaðist Helgi Hermann Eiríksson.  Á grundvelli febrúar 1930 var skipulagið samþykkt í skipulagsnefnd og seinna sama ár staðfest af ráðherra.

wpe2.gif (39783 bytes)

Árið1984 fór bygginganefnd Eskifjarðarhrepps fram á endurskoðun á skipulagi staðarins.  Var þá gildandi skipulag talið ,,með öllu óhæft á stórum svæðum eftir hlaup sem komið höfðu þá nýlega niður á bæjarlandið.

Fram til 1960 voru gerðar minni háttar breytingar, en 1960 sendi skipulagsstjórn tillögu að heildarskipulagi Eskifjarðar, ásamt greinagerð.  Þar segir m.a. að reynt hafi verið eftir föngum að samræma tillöguna þeirri byggð, sem þegar var komin, en minna tillit tekið til eldri tillagna um skipulag staðarins.

wpe4.gif (41847 bytes)

Þessi skipulagstillaga var samþykkt af hreppsnefnd Eskifjarðarhrepps árið 1961, eftir að gerðar höfðu verið nokkrar breytingar.  Staðfestingu hlaut uppdrátturinn árið 1964.

Árið 1970 samþykkti hreppsnefnd tillögu þess efnis að óskað yrði eftir endurskoðun á aðalskipulagi Eskifjarðar.

Árið 1971 var hafist handa við gerð myndrænna korta, og lauk því verki ári síðar.

Fram til ársins 1979 var unnið að endurskoðun aðalskipulagsins á vegum Skipulags ríkisins í samráði við bæjaryfirvöld.

Skipulagsstofa Austurlands var sett á laggirnar árið 1979, og tók hún við verkinu og lauk því ári síðar.  Nýtt aðalskipulag fyrir Eskifjarðarkaupstað var staðfest samkvæmt lögum þann 17. ágúst 1981.

Síðan aðalskipulag var staðfest hefur verið gert deiliskipulag fyrir einstök svæði innan marka þess.

Haustið 1986 var samþykkt að láta fara fram endurskoðun á aðalskipulagi bæjarins í heild, þar sem ýmsar forsendur voru breyttar frá því í byrjun áratugarins og áherslur breyttar.  Hefur það verk verið unnið af Skipulagsstofu Austurlands.

wpe7.gif (88750 bytes)

Að lokum kemur hér það skipulag sem gengið er út frá í dag.