Til eru fjölmargar sögur og frásagnir frá Eskifirði og einnig sögur sem sýna vel hvað Eskifjörður var mikilvægur í lífi Austfirðinga á árum áður.  Hér má lesa nokkrar af þeim.

 

Fjölmargar sögur eru einnig í t.d. 1. bindi Eskju, þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar og fleirum bókum.

 

Hrakningarsaga breskra hermanna á Eskifjarðarheiði

(skrifuð af Bergþóru Pálsdóttur frá Veturhúsum)

Aftur upp ...

Veturinn 1941- 42 var, eins og kunnugt er, allmikið setulið á Reyðarfirði.  Það mun hafa verið þjálfað þar í ýmsum heræfingum, meðal annars í gönguferðum.  Var þá stundum farið til fjalla, en oftast milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar eftir veginum, sem liggur meðfram ströndinni, og er það kringum 3 tíma gangur (15 km).  Oftast voru þessir menn, sem á ýmsan hátt minntu á múmíur vegna aga og klæðnaðar, með bakpoka sem vógu 60 pund, byssu og skotbelgi.  Margt verður fólki sjálfsagt minnisstætt frá dvöl þessara manna.  Mér mun seint úr minni líða sá atburður, sem nú skal reynt að greina frá.  

Hinn 19. janúar 1942 var úrhellisrigning, svo að vötn uxu til muna.  Um nóttina birti til, og fraus þá svo skyndilega, að ekki náði að þorna af steinum.  Urðu því allir melar ísaðir, grunnstingull kom í vötn, og fannir urðu svelllagðir ofan.  Á Eskifirði hafði verið kolalaust um tíma.  Margir áttu því af skornum skammti til eldiviðar, og þeirra á meðal vorum við.  Síðustu dagana höfðum við orðið að notast við rusl, sem til féllst á heimilinu.  En nú var það kolaskip komið í höfn og beið losunar.  

Hinn 20. janúar var stillt og bjart veður, svo að hvergi sást ský á lofti.  Bræður mínir, Páll Pálsson, sem bjó þá með móður okkar, Þorbjörgu Kjartansdóttur, í Veturhúsum við Eskifjörð, næsta bæ við Eskifjarðarheiði, og Magnús Pálsson, þá 15 ára, fóru þennan morgun til að vinna við uppskipun úr kolaskipinu.  Við systur tókum þá að okkur fjárhirðingu og aðra gæslu gripa á meðan.  Kvöldið áður hafði tapast ein ær frá húsum, meðan Páll var að gefa fénu.  Hvernig sem á því stóð, gat hann ekki fundið hana þrátt fyrir ærna leit, áður en myrkrið skall á, og var hún því úti um nóttina.  Til þess að bræðurnir kæmust til vinnu, buðumst við systurnar til að leita ærinnar, og fórum við mæðgur allar af stað í birtingu um morguninn og höfðum með okkur poka.  Árið áður hafði fallið skriða inn í dalnum, og þar sem hlíðin er öll  kjarri vaxin, var þarna dálítið af kalviði.  Þarna varð móðir okkar eftir og tíndi eldivið í pokana, en við gengum lengra og fundum ána í fullu fjöri í dalbotni.  

Ég segi frá þessu aðeins af því, að þetta furðulega flan ærinnar varð óefað til þess, að við höfðum nægan eldivið þennan dag og hina örlagaríku nótt, sem í hönd fór.  Um klukkan þrjú fór að þykkna í lofti, og klukkan fjögur mun hafa verið komnar áleiðingar í fjöll.  Þá fórum við að gá að fénu, en vantaði nokkrar ær, og fór ég að leita þeirra.  Þegar heim kom um kl. 5, var komin suð-austan rumba og rigningarslit.  Munum við systur þá hafa verið orðnar þreyttar og leiðar á fjármennskunni, því að við mundum ekki, hvort við hefðum gengið örugglega frá lokunni á því húsi, sem við létum seinast inn í.  

Klukkan sjö um kvöldið var búið að losa kolaskipið og lögðu bræðurnir þá strax af stað heim, en þá var kominn grenjandi suðaustanstormur og rigning.  Voru þeir því þreyttir og mjög illa til reika, er þeir komu heim klukkan rúmlega átta.  Klukkan um 10 voru allir búnir að taka á sig náðir, en svo ömurlega lét veðrið í eyrum móður minnar, að hún fékk sig ekki til að slökkva ljósið í herberginu sínu, en glugginn sneri að heiðinni.  

Seint á ellefta tímanum óskapaðist veðrið svo, að Páll fékk áhyggjur af og taldi vissara mundi vera að gá að gripahúsunum,  ef vera kynni að þeim hefði ekki verið vandlega lokað.  Talaði hann þá til Magnúsar, en hann svaf mjög vært.  Páll bað þá Kristínu systur okkar að koma niður og gæta dyranna, meðan hann færi út.  Hún gekk um gólf í köldum ganginum og óttaðist um bróður sinn.  Um það bil, sem hún gat farið að búast við honum, sér hún mannshönd fálma upp á gluggann.  Henni flaug fyrst í hug, að Páll hefði dottið og slasast, en einhver innri rödd sagði henni þó, að þetta hefði ekki verið hönd Páls.  Hún beið enn litla stund, en hugðist svo fara til að sækja okkur hin til aðstoðar.  En þá knúði Páll dyra og var með nærri meðvitundarlausan mann í fanginu.  

Þegar Páll fór út, var veðurofsinn svo mikill, að hann varð að allrar orku til að hrekja ekki burtu frá húsinu og af leið.  Einnig var svo dimmt að hann sá ekki handa skil.  Ekki hafði hann ljós með sér, því það voru ekki til nema olíuluktir á bænum, og hugði hann, að ekki mundi hægt að halda ljósi á þeim í þessu hvassviðri.  Er hann kom að fjárhúsunum, var þar allt í góðu lagi, og ætlaði hann að þá að ganga við hjá hesthúsinu, sem var vestan við bæinn.  En er hann átti skamma leið þangað, sá hann, að hann var að ganga á einhverja dökka þúst, sem þó hreyfðist.  Hann hélt, að þetta væri eitthvað, sem fokið hefði, en er hann aðgætti betur sá hann, að þetta þokaðist á móti veðrinu.  Hann sá enga skilsmíð á þessu í myrkrinu, og andartak datt honum í hug að leggja af leið og láta þetta eiga sig, en bægði sig fljótt frá sér hjátrú og lítilmennsku og gekk nær til þess að sjá, hvað þetta væri.  Hann beygði sig svo niður að þessu og sá, að það var maður, sem skreið á fjórum fótum, en datt alltaf öðru hvoru.  Maðurinn varð ekki Páls var, fyrr en hann tók á honum og reisti hann upp.  Þá sá Páll, að þetta var hermaður.  Páll gat ekki losað byrðina af manninum úti,  af því að allar ólar voru orðnar svo þrútnar af bleytu, að þær gengu ekki í gegnum hringjurnar.   Varð hann því að bera manninn til bæjar með því, sem hann hafði meðferðis.  Þau Kristín klæddu hann nú úr blautu fötunum og í önnur, en móðir okkar klæddist og fór niður, hitaði kaffi og sá honum fyrir næringu.  Maðurinn hresstist furðufljótt og gerði þeim þegar skiljanlegt, að fleiri menn væru úti.  Móðir mín kom þá og sagði mér, hversu þau væru orðin vísari.  Ég hraðaði mér á fætur, og við settum ljós í alla glugga.  Páll lagði hinn ókunna mann ofan á rúmið sitt, og sofnaði hann fljótt.  Síðan vakti Magnús hann og sagði honum, að ekki yrði um svefn að ræða að sinni.  Magnús klæddi sig þá í skyndi, og þeir bjuggu sig út í óveðrið með olíulukt, sem þeir reyndu að skýla sjálfum sér með, ef vera skyldi, að hinir nauðstöddu yrðu þeirra frekar varir.  Þannig hófu þeir leitina að mönnunum, sem þeir vissu ekki, hvort þeir voru margir eða fáir.  

Bráðlega fundu þeir tvo menn, sem voru komnir heim á tún og reyndu að fikra sig áfram heim að bænum.  Þeir höfðu séð ljósin og vonuðu, að hjá þeim væri bjargar von.  Bræðurnir héldu nú, að þeir hefðu auðveldlega fundið alla þá, sem þarna voru í nauðum staddir, en það fyrsta, sem gestir þeirra reyndu að koma þeim í skilning um, er að þeir máttu mæla, var það, að enn fleiri menn væru úti, já, mikill fjöldi manna.  Það lá nú nærri, að okkur féllust hendur við þessar fréttir, en þeir bræður fóru samt að vörmu spori út í fáviðrið og héldu áfram að veiða menn alla nóttina.  

Við konurnar höfðum líka nóg að gera.  Það þurfti að hjálpa svo að segja hverjum manni úr fötunum, og eðlilega þurftu allir að fá heitan drykk og einhverja næringu.  Þegar það brauð, sem við áttum bakað, var gengið til þurrðar, voru bakaðar pönnukökur og flatbrauð.  Reynt var að þurrka föt þeirra, en það gekk erfiðlega, vegna þess að aðeins var eitt eldstæði í húsinu og eldiviður af skornum skammti.  Við tókum allan þann fatnað, sem við áttum, til að skýla þeim með, einnig kvenfatnað.  Að síðustu var ekki annað til en sængurföt, sem vafið var utan um þá, en hinir prúðu og þakklátu gestir tóku öllu vel, sem þeim var rétt.   Við skildum ekkert í ensku, og gerði það okkur allt erfiðara.  Mennirnir virtust allir vera fúsir að veita aðstoð og hlúa hver að öðrum, létum við þá fara ofan í rúmin eins marga og þar gátu komist, en skiptum eftir einn eða tvo tíma, eftir því sem á stóð. 

Vatnleiðsla var ekki í húsinu, og urðu bræðurnir því að sækja vatn í skjólum í brunn, sem var um 90 metra frá bænum.  Urðu það margar ferðir, því bæði var það, að illa hélst á vatninu í rokinu, og mikið þurfti að hita.  Þegar leið undir morgun, urðum við eldiviðarlaus, en það vildi til að Páll átti nokkra girðingarstaura nálægt bænum, og sagaði hann þá niður í eldinn.  Þegar birta tók, vantaði enn nokkra menn, þar á meðal yfirforingjann.  Páll lagði þá enn af stað ásamt undirforingja og öðrum hermanni inn til dals.  Fundu þeir þá nokkra menn, sem höfðu orðið að nema staðar, og ennfremur nokkur lík.  Meðal þeirra var lík yfirforingjans, sem fannst inn í botni dalsins, en þar hafði þjónn hans skilið við hann um nóttina.  Enn vantaði þrjá menn, og fundust tveir þeirra um hádegi, báðir lifandi, en annar andaðist, skömmu eftir að hann var fluttur heim til okkar.  Lík hins þriðja fannst ekki fyrr en daginn eftir, rekið af sjó.  

Enginn sími var í bænum, og var því ekki hægt að kalla þannig á hjálp, þegar dagaði.  Þó sími hefði verið og hægt hefði verið að ná sambandi við stöðina á Eskifirði um nóttina, hefði það reynst tilgangslaust, meðan á óveðrinu stóð, því að Þverárnar runnu saman yfir öll nes og eyrar fyrir neðan brekkur og því ófærar yfirferðar.  Vera ná þó, að hægt hefði verið að bjarga þeim fjórum mönnum, sem létu lífið utan við þessar ár.  Munu þeir hafa komist á undan aðalflokknum og við illan leik sloppið út fyrir árnar.  Því er bræðurnir byrjuðu að leita, var þeim ekki ugglaust um, að þeir gátu ekki nálgast hina nauðstöddu menn.  Þverár þessar renna skammt fyrir utan Veturhús.  

Verið hélst óbreytt til klukkan þrjú um nóttina, en þá mun hafa farið að draga út storminum, og úrfellið minnkaði, þó var nokkur rigning alla nóttina.  Vötn minnkuðu þá fljótt, og klukkan 9 að morgni voru Þverárnar orðnar væðar fyrir fullhrausta menn.  Um klukkan 10 kom breskur yfirforingi inn að Veturhúsum og sá, hvernig komið var.  Var hann á leið inn í Eskifjarðardal til þess að vita, hvort hann yrði leiðangursmanna var og hvernig ástatt væri fyrir þeim.  Brá hann skjótt við út á Eskifjörð og kallaði saman hjálparlið úr hernum.  Komu þá og nokkrir menn af Eskifirði, sem vildu veita aðstoð, t.d. héraðslæknirinn, Einar Ástráðsson, og Jón Brynjólfsson, bóksali, sem með sinni ljúfu og rólegu framkomu veitti eins konar öryggi og birtu inn í starfið, sem enn var nóg fyrir hendi.   Mennirnir voru allir fluttir út eftir um kvöldið, og voru þá flestir orðnir svo frískir, að þeir gátu gengið út á Eskifjörð, sem er um fimm kílómetra leið.  Nokkrir voru þó bornir á sjúkrabörum, en lík hinna látnu voru geymd heima á Veturhúsum, að utanskildum þeim, sem létu lífið fyrir utan Þverár.  Alls létu þarna lífið níu menn.  

Flestir voru þessir menn vel búnir klæðum, en þó munu nokkrir hafa treyst um of á hinn bjarta morgun og byrðina, sem mundi halda á þeim hita hinu erfiða leið.  Nokkrir höfðu verið svo óheppnir að tapa af sér skóm og sokkum í aurbleytu og vatnagangi á leiðinni, og voru þeir með bólgna og sáruga fætur.  Vafalaust hefði þessi ferð orðið giftusamlegri, ef flokkurinn hefði getað farið ákveðna leið frá Reyðarfirði um Svínadal og yfir Hrævarskörð niður til Eskifjarðar.  En vegna svella og harðfennis urðu þeir að snúa við frá Hrævarskörðum, handa áfram út Svínadal, svo inn Tungudal og þá leið upp á Eskifjarðarheiði.  Þetta mun hafa tafið þá um 3-4 tíma.   

Í byrjum ferðarinnar eða í Svínadal voru þeir líka í heræfingum, sem tóku nokkurn tíma.  Þegar þeir svo loksins komu upp á heiðina, var orðið dimmt.  Innst í botni Eskifjarðardalsins renna tvær þverár, Ytri- og Innri- Steinsár, og eru báðar að jafnaði nokkuð vatnsmiklar og vondar yfirferðar.  Í þetta sinn eins og oft áður voru þær ekki færar, og urðu vesalings mennirnir því að klífa upp með þeim aftur og alla leið upp fyrir brúnir, þar sem þær voru ekki orðnar eins umfangsmiklar.  Á þeirri leið mun yfirmaður þeirra hafa fótbrotnað, og var talið að það hefði á sinn hátt valdið dauða hans.  Þess má geta, að maðurinn sem líkið fannst af út við sjó, hafði gengið sig út af kletti inni við Steinsár í myrkrinu. 

Ólafur Pálsson, bróðir minn, nú bóndi í Byggðarholti við Eskifjörð, bjó þegar þetta gerðist í Eskifjarðarseli beint á móti Veturhúsum.  Um kvöldið hinn 20. janúar klukkan að ganga tólf sá hann af tilviljum ljósið og umferðina á Veturhúsum.  Skildi hann þegar, að eitthvað mundi vera að.  Hann hafði þá tal af Jóhanni Björgvinssyni , sem líka bjó í Eskifjarðarseli, og vildu þeir þá komast yfir Eskifjarðará, sem rennur milli bæjanna, og vita hverju þetta sætti.  Hestar voru þá á gjöf og við hendi.  En áin rann þá orðið yfir allar eyrar og nes, svo að enginn vegur reyndist að komast yfir hana.  

Íbúðarhúsið á Veturhúsum var mjög lítið, ein hæð og ris með dálitlu porti.  Niðri var aðeins ein stofa, eldhús, búr og dálítil forstofa.  Er því skiljanlegt, að þröngt muni hafa verið í húsinu, sem hýsti 48 gesti þessa örlaganótt.   Við vorum öll orðin mjög þreytt og af okkur gengin, þegar þessu var lokið, og í fyrstu var þetta allt meðvitund okkar eins og þungur draumur eða martröð.  En þakkarorð og fyrirbænir þessara góðu gesta yljuðu okkur um hjarta og milduðu það, sem okkur fannst sárast, að ekki skyldi auðið að bjarga öllum þeim, sem þarna voru á ferð. 

(Lesbók Morgunblaðsins, 10. tbl. 1964, bls. 8).

Aftur upp ...

Síðasta aftaka á Austfjörðum

Síðasta aftakan - Glærusýning

Í móðuharðindunum eða skömmu eftir þau var þess vart, að menn lágu úti á fjöllum milli Eskifjarðar og Fljótsdalshéraðs.  Yfir þessi fjöll lágu leiðir manna af Héraði til Eskifjarðar, svo og til Seyðisfjarðar og yfir svonefnda Fönn til Norðfjarðar.  Réðust útilegumenn þessir að ferðamönnum, er þeir voru að sækja varning sinn í kaupstað, og rændu þá, ef þeir gátu því við komið.  Verslum var þá aðallega í Breiðuvík við Reyðarfjörð.  Einnig munu útilegumenn hafa rænt fénaði manna sér til viðurværis.  Reynt hafði verið að ná mönnum þessum en jafnan mistekist. 

Nú bar svo við eitt sinn, að unglingspiltur sem þarna var á ferð, fann af tilviljun kofa eða hreysi þessara manna.  Gripu þeir hann og skáru úr honum tunguna, svo að hann gæti ekki sagt til þeirra eða vísað á fylgsni þeirra, en slepptu honum síðan.  Drengurinn komst nær dauða en lífi til Eskifjarðar. 

Jón Sveinsson var sýslumaður í Suður-Múlasýslu 1781-1799 og bjó á Eskifirði.  Lét hann nú að nýju leita mannanna á fjallinu, og fannst hreysi þeirra að lokum, vandlega falið, nálægt svonefndum Harðskafa.  Leitarmenn fundu aðeins einn mann í kofanum, og varðist hann hraustlega með grjótkasti.  Loks varð hann þó tekinn höndum, og tveir félagar hans náðust þar skammt frá.  Ekki veit menn nú nöfn þessara manna, nema þess er í kofanum náðist.  Hét hann Eiríkur, og telja margir hann ættaðan úr Breiðdal.  Voru nú menn þessir fluttir til Eskifjarðar og hafðir í haldi á Borgum, en sá bær stendur andspænis bænum á Eskifirði.  Leið svo fram um hríð, uns mál þeirra var dæmt í héraði.  Þess er ekki getið, hvernig sá dómur féll en skömmu síðar tók sýslumaður sér fari utan þeirra erinda, að alið var, að fá refsingu fanganna mildaða, og fékk hann því framgengt. Var Jón sýslumaður hann mætasti maður, vægur í dómum og vorkunnlátur við smælingja.

Er sýslumaður kom aftur úr utanförinni, voru tveir fanganna látnir í geymslunni á Borgum.  Mælt er, að Soffía, kona sýslumanns, hafi skammtað þeim naumt matinn; hafi Eiríkur, sem var þeirra mestur fyrir sér, etið allt frá hinum, og ekki hafi verið að gáð, fyrr en þeir voru dauðir úr hor og hungri.  Brá sýslumanni mjög við þetta og átaldi Eirík harðlega, en hann kvað matinn ekki hafa nægt sér einum, hvað þá fleirum, og væri sýslumannsfrúnni um að kenna.

Skömmu síðar var mál þetta tekið fyrir að nýju, og var nú Eiríkur dæmdur til að höggvast.  Átti sýslumaður að sjá um aftökuna, en hann fól það hreppstjóra; hét sá Oddur og bjó á Krossanesi við Reyðarfjörð.  Öllum, sem heyrt hafa getið um atburði þessa, ber saman um það, að Oddur þessi hafi verið illa þokkaður af sveitungum sínum.

Hófst nú Oddur handa um undirbúning aftökunnar.  Skyldi hún fara fram á Mjóeyri við Eskifjörð.  Böðull sýslumanns var til kvaddur, en hann færðist undan að vinna á Eiríki og kvað sig skorta hug til þess.  Böðull þessi nefndist Bergþór og bjó á Bleiksá, býli við Eskifjörð. 

Þorsteinn hét maður úr Norðfirði, er hafði flakkað víða og var nokkuð við aldur, er þetta gerðist.  Bauð hann sýslumanni að vinna böðulsverkið, og var það boð þegið.  Öxi var fengin að láni hjá kaupmanni á Eskifirði. 

Þegar nú var lokið var öllum undirbúningi aftökunnar, fór Oddur hreppstjóri með tilkvadda menn að Borgum til að sækja fangann.  Voru þeir allir mjög við vín.  Er þangað kom, sat Eiríkur í fangelsinu og uggði ekki að sér, enda hafði honum ekki verið birtur dómurinn.  Lét Oddur binda hendur hans, kvað hann eiga að skipta um verustað og lét gefa honum vín.  Hresstist þá Eiríkur og varð brátt kátur mjög; þótti honum sem sinn hagur mundi nú fara batnandi.  Var svo haldið af stað áleiðis til Mjóeyrar, en það er æðispöl að fara.

Gekk ferðin greitt, uns komið var í svonefnda Mjóeyrarvík.  Þá mun Eirík hafa farið að gruna margt, enda hefur hann líklega séð við búnaðinn á Mjóeyri og menn þá, er þar biðu.  Sleit hann sig þá lausan og tók á rás, en Oddur og menn hans náðu honum þegar í stað.  Beittu þeir hann harðneskju og hrintu honum áleiðis til aftökustaðarins.  Eggjaði Oddur menn sína með þessum orðum: Látum þann djöful hlýða oss og landslögum.”  Var Eiríkur síðan hrakinn út á eyrina, þar sem biðu hans höggstokkurinn og öxin.  Allmargt manna var þar saman komið, meðal þeirra skipstjóri og einhverjir skipverja af dönsku kaupfari, sem lá á firðinum. 

Er Eiríkur var leiddur að höggstokknum, trylltist hann og bað sér lífs með miklum fjálgleik.  En Oddur og menn hans létu hann kenna aflsmunar og lögðu hann á stokkinn.  Eiríkur hafði hár mikið á höfði; tók Oddur þar í báðum höndum og hélt höfðinu niðri.  Skipaði hann síðan Þorsteini úr Norðfirði að vinna sitt verk.  Þorsteinn brá við hart, en svo illa tókst til, að fyrsta höggið kom á herðar Eiríki og sakaði hann lítt.  Þá reið af annað höggið og hið þriðja, og enn var fanginn með lífsmarki.

Oddur hreppstjóri skipaði nú böðlinum að láta hér staðar numið, eða hvað skal nú gera,” mælti hann, samkvæmt lögum má ekki höggva oftar en þrisvar.”  Þá gekk fram skipstjórinn danski, leit á fangann, sem var að dauða kominn, og skipaði að binda skyldi endi á kvalir hans án frekari tafar.  Hjó þá Þorsteinn ótt og títt, og fór af höfuðið í sjöunda höggi.  Skipstjórinn leit þá til Odds og mælti: Drottinn einn veit, hvor ykkar hefur fremur átt þessa meðferð skilið, þú eða fanginn.  Ef ég hefði ráðið, skyldir þú hafa fylgt honum eftir.”  Lík Eiríks var síðan grafið á Mjóeyri.

Um aftökuna var ortur bragur, sem nú er gleymdur nema þetta erindi um Þorstein böðul og Odd hreppstjóra:

Með öxinni hjó hann ótt og títt sem óður skollinn,

herra Oddur hélt í kollinn,

hinir litlu blóðs í pollinn.  

 

Öxi sú, er Eiríkur var höggvinn með, var lengi til í eigu hinna Sameinuðu íslensku verslana á Eskifirði, og munu margir hafa  séð hana þar.  Síðast 1925 var hún notuð þar fyrir kjötöxi; var hún þá slitin mjög og er nú líklega glötuð. 

Friðrik Klausen á Eskifirði telur sig hafa fundið fylgsni útilegumannanna hjá Harðskafa.  Gróf hann í rústir þess og segist hafa fundið þar mikið af kindabeinum.  Segir hann, að sér hafi virst staðurinn vel falinn, og erfitt muni hafa verið að finna hreysið.

 

Um sannleiksgildi þessarar sögu að öðru leyti er vant að segja, því að munnmæli öl eru óljós og margt gleymt, sem máli skiptir.  Þó ber öllum sögumönnum saman um mannanöfn og ýmis önnur mikilsverð atriði, svo sem um hin hryllilegu mistök í sambandi við aftökuna, hrottaskap og harðýðgi Odds á Krossanesi, og það, að böðullinn Þorsteinn hafi verið gamall og ófær til að gegna þessum starfa, flækingur, sem hafi verið látinn vinna þetta verk undir áhrifum víns.

Enginn vari er þó á, að atburðir þessir hafa gerst; gamlir menn austfirskir segja, að foreldrar sínir hafi vitað deili á öllu þessu, þótt nú sé flest gleymt,  Hitt er annað mál, hvort þeir hafa orðið í tíð Jóns Sveinssonar sýslumanns.  Í annálum, sem hann hefur ritað, mun þessa máls ekki vera getið.  Sögumenn segja, að sýslumannsfrúin, er lét færa Eiríki og félögum hans matinn í fangelsið á Borgum, hafi verið dönsk.  En kona Jóns Sveinssonar var, svo sem kunnugt er, Soffía, ekkja Þorláks Ísfjörðs sýslumanns, fyrirrennara Jóns.

Ég tel samt líklegt,að aftaka þessi hafi farið fram í tíð Jóns sýslumanns og hann hafi fjallað um þetta mál.  Hann og kona hans sömdu sig mjög að dönskum siðum, og kallaði Jón sig Svendsen.  Gæti það verið ástæða til, að sögumenn telja sýslumannsfrúna danska.  Ýmis atvik, er sýslumanni hafi fallið illa og hann ekki vildi halda á loft, geta legið til þess að hann minnist ekki þessara atburða í annálum sínum.

Í Árbókum Espólíns segir, að maður á Austfjörðum hafi orðið unglinga að skaða með því að skera úr honum tungu árið 1784, að mig minnir, og hafi hann verið líflátinn fyrir það.  Annað segir ekki þar um.  Er hér vafalaust um Eirík að ræða, og hefur þá Jón Sveinsson verið sýslumaður í Suður-Múlasýslu. 

Félagar Eiríks, er hann helát á Borgum, voru dysjaði þar í túninu eða skammt frá því.  Bein þeirra blés upp seint á 19. öld og lágu þar lengi síðan umhirðulaus, uns þau voru urðuð við grjótgarð, er liggur skammt frá túninu.  Eru þau þögull vottur um þessa hryllilegu atburði.

Í Þjóðsafni Sigfúsar Sigfússonar, þar sem hann getur kirkjuránsins í Vallanesi í tíð Jóns prests Stefánssonar, segir að ránsmennirnir, héti Jón og Einar, hafi að endingu veslast upp og dáið úr sulti í Eskifirði, og halda því ýmsir því fram, að beinin á Borgum séu beinin þeirra.  En það getur ekki átti við rök að styðjast, því að báðir þeir menn höfnuðu að lokum í lífverði Jörundar hundakonungs, svo sem sjá má af endurminningum frú Gyðju, konu Thorlaciusar sýslumanns, en hann dæmdi í kirkjuránmálinu.  Óttaðist frúin, að þeir kæmu fram hefndum á sýslumanni, þá er von var Jörundar í heimsókn í sýslu  hans, en af þeirri heimsókn varð aldrei, svo kunnugt er.

(Eftir handriti Einþórs Stefánssonar frá Mýrum í Skriðdal.  Þessi saga er skráð hálfum öðrum áratug síðar en næst á undan. -Þ.M.J.)

Aftur upp ...

Þýsk flugvél ferst við Reyðarfjörð

Skýrsla sýslumanns um aðgerðir á slysstað 

Eftir að Bretar hernámu Ísland í seinni heimstyrjöldinni höfðu Þjóðverjar mikinn hug á að kynna sér umsvif þeirra hérlendis.  Til þess að afla upplýsinga sendu þeir flugvélar hingað til lands og í hafinu kringum landið var hlutverk kafbáta þeirra hið sama.

Fyrstu þýsku flugvélarinnar varð vart hérlendis yfir Reykjavík þann 3.nóvember árið 1940 og eftir það urðu þær nokkuð tíðir gestir og þá ekki síst á Austfjörðum, þar sem þær komu ekki eingöngu í könnunarflug heldur einnig til árása.

Á uppstigningardag árið 1941 fórst þýsk flugvél í svokölluðum Valahjalla við Reyðarfjörð og var með henni öll áhöfnin.  Talið var að vélinni hefði verið ætlað að kanna umsvif Breta á Reyðarfirði eða jafnvel gera árás.  Ekki er meiningin að gera ítarlega úttekt á þessum atburði hér heldur birtum við nú skýrslu Lúðvíks Ingvarssonar þáverandi sýslumanns í Suður-Múlasýslu, sem hann sendi Dómsmálaráðuneytinu um athuganir sínar á slysstað.  Skýrslan er dagsett 6.júní 1941 og er svohljóðandi.

,,Svo sem ég hefi tjáð skrifstofustjóranum í dómsmálaráðuneytinu í símtali hefir orðið upplýst um það, að lögsagnarumdæmi mínu hefir farist  þýsk hernaðarflugvél.  Vil ég gefa hinu háa ráðuneyti skýrslu um málsatvik að svo miklu leyti sem þau eru mér kunn.

Aðfaranótt uppstigningardags, 22. dag maí mánaðar, kl 2 eftir miðnætti sást frá Krossanesi við Reyðarfjörð, til flugvélar, sem flaug yfir bæinn og túnið fjórum sinnum.

Þoka var á og dimmt yfir.  Flugvélin hvarf frá Krossanesi í vesturátt inn til landsins.  Örstuttu eftir að hún hvarf sást í vesturátt rauður bjarmi og stuttu síðar heyrðist þá sprenging og sást bjarmi í þokunni innan og ofan við bæinn.  Var sprengingin svo öflug að bæjarhús á Krossanesi nötruðu.  Heimildarmaður minn að þessu er Tryggvi bóndi Eiríksson á Krossanesi.  Sprenging þessi heyrðist bæði á Vattarnesi, Karlsskála og einnig í Vaðlavík. 

Á annan dag hvítasunnu þ.e. 2.þ.m. var fyrrnefndur Tryggvi Eiríksson að ganga fyrir fé á svonefndum Valahjalla í fjallinu fyrir innan Krossanes.  Varð hann þar var við brak úr flugvél og eitt mannslík.  Ekki gerði Tryggvi mér eða hreppstjóra aðvart um þennan fund sinn, sem honum bar þó skylda til, heldur munu fregnir af atbruðum þessum fyrst hafa borist breska herliðinu á Reyðarfirði frá honum en til mín komu fregnir af þessu á skotspónum.  Ég bað hreppstjórann í Helgustaðarhreppi þegar í stað að fara á vettvang og gaf hann mér munnlega skýrslu um það, er hann sá á staðnum.  Miðvikudaginn 4 þ.m. átti ég tal við breska yfirmenn á Reyðarfirði og varð það að samkomulagi, að ég færi ásamt þremur Íslendingum með breskum hermönnum á slysstaðinn. 

Að morgni dags í gær, fimmtudaginn 5. maí var lagt af stað á breskum varðbáti áleiðis til Krossaness.  Var lent skemmt frá svonefndum Haugum og haldið sem leið lá upp skriður upp á Valahjalla.  Það er landslagi svo háttað að upp í hjallanum í ca. 300 m hæð er stórgrýtisurð sem er allmikið gróin en fyrir ofan hjallann er 2-300 m há klettahlíð með allmörgum rákum misjafnlega breiðum svo sem títt er í fjöllum við sjó fram hér Austanlands.  Á víð og dreif um hjallann liggja ýmsir hlutir úr flugvél o.fl.  Einnig lá þar ósprungin sprengja ca. 80 cm á lengd og 25 cm í þvermál.  Hjá afturhluta flugvélarinnar lá mannslík allmjög brunnið og skaddað að öðru leyti.  Af ástæðum sem þarflaust er að greina tókst ég á hendur að segja fyrir um hvernig líkunum skyldi komið niður hjallann.  Var óhjákvæmilegt að beita við það nokkuð ruddalegum aðferðum svo sem að draga þau á staði þar sem hægt var að sauma utan um þau.  Saumaði ég síðan sjálfur ullarteppi utan um líkin með aðstoð óbreytts hermanns.  Að því loknu hnýtti ég utan um þau reipi og með aðstoð þess var líkunum komið niður á hjallann.  Þar tók breski herlæknirinn við þeim og saumaði frekar utan um öll líkin, en breskir hermenn og íslenskir hjálparmann mínir fluttu líkin til sjávar.  Þaðan voru líkin flutt á hinum breska varðbáti til Reyðarfjarðar og jarðsungin þar í nótt með hernaðarlegri viðhöfn.

Lík þau, sem þarna fundust voru eins og áður er sagt 3 að tölu.  Er mér tjáð að Bretar hafi fundið á þeim járnkrossa og skjöl er sýnt hafi, að flugvélin kom frá Noregi.  Tryggvi Eiríksson fann peningaveski laust skammt frá línu er niðri á hjallanum lá.  Í því voru norskir peningaseðlar.  Veski þetta ásamt peningaseðlum tóku Bretar í sínar vörslur.  Einnig hafa þeir látið greipar sópa um alla smáhluti, er þeim hefir þótt einhvers virði að ná í.

Ég til engan efa leika á því, að flugvél sú, er hér hefir farist hefir verið þýsk.  Í fyrsta lagi munu skjöl þau er á eða hjá líkunum fundust bera vitni um það að menn þessi hafi verið þýskir en skjöl þessi hefi ég ekki séð sjálfur.  Á stéli flugvélarinnar er hakakross.  Á lendingarhjóli hennar stendur orðið Continental og orðið Deutches Fabrikat og á ensku og frönsku orð sömu merkingar.  Stálhjálmur er á hjallanum liggur er með hakakrossi og ýmislegt fleira ber að sama brunni, t.d. fannst í járnkassa ásamt ýmsum gúmmíviðgerðaráhöldum ósködduð lítil þrístrend flaska óátekin með smelltum tappa.  Á merkimiða flöskunnar stóðu orðin Weinbrand og ýmislegt fleira á þýsku.  Flösku þessa tóku Bretar í sínar vörslur og er ég hafði skýrt fyrir þeim (með því að enginn hinna bresku manna er í förinni voru skildu þýsku.)hvað í flöskunni væri, opnuðu þeir flöskuna og dreyptu á víninu.  Til þess er sagan sögð eins og hún gekk er rétt að geta þess, að ég dreypti einnig lítillega á víni þessu og fannst mér það líkjast mjög lélegu koníaki.

Í morgun kom á minn fund fréttaritari útvarpsins séra Stefán Björnsson og spurði tíðinda af atburðum þessum.  Tjáði ég honum hið ljósasta það er ég vissi.  Er ég sat að snæðingi um hádegisbilið í dag kvaddi dyra hjá mér breskur hermaður sem mun vera í svonefndu ,,Civil Service” og krafði mig sagna um það, hvar ég hefði leyft birtingu fregna af flugslysi þessu.  Tjáði hann mér að mér hefði borið að leita leyfis breskra yfirvalda á Reyðarfirði til að láta birta nokkrar fréttir um flugslysið.  Krafðist hann þess að ég stansaði birtingu fregna af flugslysinu.  Ég tjáði manni þessum, að mér væri eigi kunnugt um nein íslensk lagafyrirmæli, er veittu mér rétt til að stansa birtingu slíkra frétta.  Í fréttaskeytinu til útvarpsins stæði eigi annað en það, sem flestir, er komið hefðu á slysstaðinn og nú væru orðnir æði margir, vissu.  Ég væri embættismaður hins sjálfstæða íslenska ríkis og mér væru gersamlega óviðkomandi fyrirskipanir hernaðaryfirvalda á Reyðarfirði.  Hins vegar væri ég reiðubúinn til alls friðsamlegs samkomulags við bresk hernaðaryfirvöld en við fyrirskipunum frá þeim um embættisstörf eða persónufrelsi mitt tæki ég ekki.  Hvarf maður þessi á braut að þessu samtali loknu og hefi ég eigi af máli þessu frétt af Breta hálfu nú þegar dagur er að kvöldi kominn.

Ég vil að lokum geta þess, að það hefir alloft komið upp ýmiskonar skoðanamunur milli mín og hins breska setuliðs en vegna prúðrar framkomu flestra breskra yfirmanna hafa engir alvarlegir árekstrar orðið hér í sýslunni, sem eigi hafa jafnast.

Svo mörg voru þau orð í skýrslu sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins.  flak vélarinnar er enn á fjallinu þar sem það hefur nú legið í tæp fimmtíu ár.  Mikið hefur verið hirt úr því í gegnum tíðina enda margir lagt leið sína enda margir lagt leið sína þangað á þessum árum.  Í fyrrasumar fór Albert Kemp frá fáskrúðsfirði þangað ásamt þeim Þorsteini Bjarnasyni, Ósk Bragadóttur og Erni Þorsteinsyni.  

Aftur upp ...

Reimt í Eskifirði

Þegar Jón Sveinsson hélt hér sýslu og bjó í Eskifirði voru þar í haldi fjórir þjófar eða illræðismenn.  Segja svo sumir menn að tveir eða þrír þeirra væru þeir sömu og stálu úr Vallaneskirkju frá Jóni presti yngra Stefánssyni.  Eiríkur hét sá fjórði, mikill maður og harðger.  Hann var sakaður um morð(?) Sýslumaður fór utan en Soffía konan hans lét gæta þar fanganna.  Sluppu þeir þá úr varðhaldinu og lögðust út.  Höfðust þeir við í Svartafjalli.  Það er í Helgustaðalandi.  Bjuggu þeir þar í helli einum og rændu en höfðu þó athvarf hjá Katli bónda í Sigmundarhúsum um veturinn.  Sumarið eftir kom smali að þeim frá Seldal í Norðfirði þar sem þeir stálu fé.  Þeir skáru úr honum tunguna svo hann gæti eigi sagt til þeirra.  Var Eiríkur fremstur til áræðis.  En menn urðu þeirra varir og voru þeir þá fluttir í dýflissu í Eskifirði, en hún var skemmukofi, köld og dimm; var nú hert sýnu meira að þeim en fyrr og höfðu þeir bæði illa og litla fæðu.  Rétti frúin sjálf þeim hana inn um gluggaboru.  Eiríkur var skemmstan tíma búinn að vera í haldi og minna dreginn en þeir og hraustmenni mest og harðskiptnastur.  Hypjaði hann sig undir gluggann og náði svo öllum matnum en lét hina fá það eina sem honum sýndist.  Drógust þeir þá upp þangað til  þeir létust úr hori og harðrétti.  Var frúnni fært það til áfellis.  Eiríkur lifði vel af en var hálshöggvinn síðar á Mjóeyri og dysjaður þar. Nýlega hafa menn fundið þar dys og í henni bein af mjög stórvöxnum manni.  Héldu sumir það bein Eiríks, en dysin var kennd við hann.  Sumir héldu þó þau bein úr Frakka er menn sögðu að þar hefði líka heygður verið.  Einhver slæðingur þótti mönnum sem væri á Mjóeyrinni í kveldrökkrum eftir aftöku Eiríks þar.  Hinir sakamennirnir þóttu þegar ganga aftur og ónáða frúna svo hún hafði eigi viðþol.  Voru þeir dysjaðir á Hólmahálsi en þeir þóttu eigi geta haldist í jörðu og sóttu  frú Soffíu allhart.  Þá var leitað ráða til  kunnáttumanns.  Hann sagði þjóðráð að grafa þá upp og hálshöggva og láta frúna svo ganga milli bols og höfuðs á þeim.  Það var svo gert; þeir voru grafnir upp, höggvin höfuðin af þeim, hún látin ganga á milli búks og höfuðs og þeir aftur dysjaðir.  Eftir þetta afreimaðist alveg en áður hafði mesti gauragangur þótt vera þar í Eskifirði. 

Skráð 1905 eftir sögu ýmsa gamalla manna en (1905) lifa." - Um sakamál þetta eru margar heimildir bæði prentaðar og óprentaðar.  Hefur Einar Bragi unnið rækilega úr þeim, sbr. Eskju I, 157-173, og fylgir þar heimildaskrá.

Aftur upp ...

Fyrirburður í Gamlaskóla

Orð fór af því, að reimt væri í Gamlaskóla á Eskifirði, þar sem Guðrún S. Arnesen stofnaði kvennaskólann 1875. Eskifirðingar, kölluðu hann stundum Svartaskóla í gamni á þeirra tíð, af því að húsið var tjargað.  Fritz Zeuthen læknir bjó í húsi þessu, áður en hann fluttist í Zeuthenshús vorið 1876.  Þá voru þénandi hjá læknishjónunum Þórunn Magnúsdóttir, sem síðar giftist Jóni Jónssyni á Hól, og önnur stúlka skyggn, en nafns hennar er ekki getið.

Einu sinni sem oftar sat frú Zeuthen og var að drekka kaffi úr eftirlætisbollanum sínum.  Þegar hún hafði lokið úr bollanum, setti hún hann frá sér á borðið.  Eftir litla stund hrekkur bollinn út af borðinu, án þess að nokkur hefði nærri komið, fellur í gólfið og mölbrotnar.  Vinnukonurnar voru báðar inni stadda, og bregður svo kynlega við, að skyggna stúlkan fer að skellihlæja.  Frú Zeuthen fannst þetta ekki aðhlátursefni og ávítaði stúlkuna.  Hún sagðist ekki hafa getað varist hlátri yfir undrun frúarinnar og skýrði svo frá, að drengur ekki hávaxnari en svo, að hann rétt náði upp á borðbrúnina, hefði komið inn með galsa og sópað bollanum fram af,  um leið og hann gekk fram hjá borðinu.  Nokkru síðar kom Þorvaldur í Breiðuvík í heimsókn, og þóttust menn vita, að hann hefði gert boð á undan sér með þessum hætti. 

Eitt kvöld voru þær stúlkurnar að fara upp til sín að hátta, og fór skyggna stúlkan á undan.  Þegar hún er komin ofarlega í stigann, hrökklaðist hún niður aftur og segir við stöllu sína ,,far þú á undan Tóta.”  Þórunn lét sér hvergi bregða og gerði sem  henni var sagt.  Þegar þær voru komnar upp, sagði stúlkan henni, að hún hefði séð mann með höfuðið í handarkrikanum; hefði hann farið í veg fyrir sig og vilja varna sér uppgöngu, en þegar Þórunn fór fyrir þeim, vék hann til hliðar, svo að þær gátu komist leiðar sinnar óhindraðar.

Aftur upp ...

Völvuleiði á Hólmahálsi

Á utanveðum Hólmahálsi í Reyðarfirði er steinn, er kallaður er Hvíldarsteinn, og stendur rétt hjá alfaraveginum.  Hjá steininum er grænn grasblettur, er nefnist Völvuleiði og er sú saga til:

Völva ein bjó á Sómastöðum í Reyðarfirði, nokkru fyrir þann tíma, er Tyrkir rændu her við land (1627).  Áður en hún andaðist, lagði hún svo fyrir, að sig skyldi grafa þar, er best væri útsýn yfir Reyðarfjörð, og kvað þá aldrei fjörðinn mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein væri óbrotið í sér.  Var hún þá grafin á fyrirnefndum stað.  Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum, hugðu þeir sér til hreyfings að sigla inn á Reyðarfjörð og ræna Hólmakirkju og kaupstaðinn að Breiðuvíkurstekk.  Þóttust þeir eiga þar fangsvon góða.  En er þeir komu í fjarðarmynnið, kom á móti þeim geysandi stormur, svo að fjöll þakti í sjávarroki beggja megin fjarðarins. Urðu þeir þar frá að hverfa við svo búið.  Aðrir segja, að þeim hafi þótt svo að sjá inn til fjarðarins sem þar brynni bæði land og lögur.  Í austurtúninu á Hólmum getur að líta nokkra ljósleita steina, er standa þar upp úr þúfunum.  Segja menn, að það séu legsteinar barna þeirra sömu völvu, er grafin er á hálsinum.  Var það trú manna, að með því að slá á þá mætti láta koma niður úr hverri átt, er vildi.

(Björn Bjarnason frá Viðfirði:  Sagnakver, 2 útg., bls. 172).

Í þjóðsögum Sigfúsar, VIII. bindi, bls. 87 er frásögn með sama nafni og efnislega á sömu lund, nema sagt er þar, að seiðkonan hafi búið á Hólmum, en flust að Sómastöðum vegna eirðarleysis eftir barnamissinn.

Aftur upp ...

Hólmar í Reyðarfirði.

Á ofanveðri 15. öld bjó bóndi einn á Hólmum í Reyðarfirði. Hann átti þrjá syni. Var einn þeirra fæddur blindur. Bóndi var auðugur að fé, bæði löndum og lausum aurum; átti hann Hólma ásamt kirkjunni og þeim jörðum, er til hennar lágu. Þegar bóndi andaðist, skiptu þeir bræður arfi, gerðu vottfest skiptabréf, undirstrikað af þeim, ásamt handsöluðu nafni blinda bróðurins.

Þegar það var gert heyrinkunnugt , kom í ljós, að blindi bróðirinn hafði verið flekaður svo, að í hans hlut kom aðeins sker eitt lítið, sem ekki var grasi gróið, sunnan undir svonefndum Stórhólma. Ekki fékk hann neina réttingu mála sinna, þó að hann kvartaði yfir því ranglæti, er hann hafði verið beittur.Kváðu þeir þetta gerð með hans vitund og vilja, og báru fyrir sig skiptabréfið. Varð hann að una við svo búið.

Litlu síðar lét guð af miskunn sinni reyðarhval mikinn festast í skerinu. Var hvalurinn eign blinda bróðurins og honum til framdrattar langan tíma. Skerið er síðan nefnt Reyðarsker.  Nú var það nokkru síðar að biskup var á vitjunarferð og kom að Hólmum.  Hafði hann frétt um skipti þeirra bræðra.  Átaldi hann þá mjög fyrir ranglæti það, er þeir höfðu beitt bróður sinn, blindan og ósjálfbjarga.  Þeir kunnu illa átölum biskups, tóku hann og sveina þá, er með honum voru, settu þá í áralausan bát, er stóð við sjóinn, þar sem síðar heitir Biskupsbás, og hrundu á flot.  Vindur hvass stóð af landi.  Hugðu þeir biskup mundu farast þar.  En svo bar til, að bátinn rak að landi hinum megin fjarðarins, svo að biskup komst heilu og höldnu í land.  Þar heitir síðan Biskupshöfði.  Biskup lét síðan tólf presta dóm ganga um þetta ofbeldi ganga um þeirra bræðra.  Dæmdu þeir hólma og kirkjuna ásamt þeim jörðum, er henni tilheyrðu, frá þeim bræðrum til eignar kirkjunni.  Af því fé lagði svo biskup jarðirnar Sómastaði og Sómastaðagerði ásamt Stórhólmanum til framfærslu blinda bróðurnum, og ákvað, að þær skyldu jafnar vera fátækrafé til framfærslu einhverjum þurfamanni í Reyðarfirði, en Hólmaprestur hafa umráð jarðanna.

Aftur upp ...

Tilkynning 

Það vildi til fyrir nokkrum árum í Eskifjarðarkaupstað að þar urðu deilur og ryskingar milli þriggja manna.  Var öðrum megin Sigurður Stefánsson frá Sigmundarhúsum, ungur maður lágur vexti en vel þrekinn og talinn einn hver sterkasti maður sem þá var í Reyðarfirði og góðmenni en þó nokkuð hreðugjarn við vín.  Hinum megin var sá maður sem Kristján hét, svo knár að hann snaraði brennivínstunnu upp á búðardisk; hann þótti ölkær og þá ærið harðfengur og illskiptinn.  Þeim Sigurði hafði lent áður saman á Vattarnesi og Kristján þóst fara halloka fyrir Sigurði og vildi nú jafna hluta sinn.  En það vildi eigi takast á meðan menn sáu til.  Þá slóst í leikinn með honum maður sá sem Jón hét, Sigurðsson.  Menn vissu það síðast til þeirra að þeir voru allir drukknir og á flakki er menn sofnuðu almennt í kaupstaðnum.  Um nóttina er sagt að hljóð hafi heyrst af skipi á höfninni og víðar að.

Jón Steingrímsson, tengdasonur Jónasar að Svínaskála, var að vexti og afli talinn jafnoki Sigurðar og vinur hans.  Hann dreymdi  um nóttina að Sigurður kom til hans illa til reika og mælti: Nú ert þú illa fjarstaddur, vinur minn, að hjálpa mér.  Það eru tveir menn að drepa mig núna neðan við Salthúsið."

Um morguninn fannst Sigurður dauður í sjónum við bryggjuna, sást áverki á höfði hans og haft er það eftir lækni að hann hefði dauður í sjóinn farið því hann skoðaði hann.  Jón þessi hengdi sig fyrir fáum árum á Akureyri en Kristján fór utan.

„Sögn Jóns Péturssonar í Tunghaga eftir Jóni Steingrímssyni.“

Aftur upp ...

Jón brýtur slóð upp Dalina 

(Miklar sögur fara af fjölkynngi Jóns Þórðarsonar, bónda að Dalhúsum í Eiðaþinghá, sem nefndur er Dalhúsa-Jón.  Hér má lesa tvær þeirra sagna.)

Eitt haust var fjölmennt í Eskifjarðarkaupstað sem þá var upp kominn, en vegir tepptir af snjókafaldi svo enginn komst heim og sátu þar veðurtepptir vikutíma.  Þegar hríðinni létti sáu menn sér engan veginn fært að fara því djúpur snjór lá yfir öll fjöll.  Jón gengur þá fram og mælti: Viljið þið launa mér nokkru ef ég geri svo greiða vegi að þið komist allir heim?” Við viljum gæða þig sæmilegum gjöfum, “ sögðu sveitamenn.  Jón tók þá hesta sína,  lagði á þá og lét burð á þá fimm en settist á þann sjötta, reið svo af stað og rak klyfjahestana.  Varð honum engin fyrirstaða.  Kom hann klakklaust heim.  Héraðsmenn fóru allir slóð hans að Dalhúsum án nokkurrar fyrirstöðu, svo var braut Jóns góð.  Síðan guldu bændur Jóni það sem þeir höfðu lofað honum.

Aftur upp ...

Jón seiðir til sín lifandi hvali 

Jón var eitt sinn á ferð með dreng upp úr Eskifirði og runnu þá tveir hvalkálfar óðfluga inn fjörðinn. Falleg eign væru þessir, “segir strákur. Hvað er annað en reyna að eignast þá?” svarar Jón og fer yfir galdraformála sína. Renna hvalirnir á land og til fjalls eftir þeim. Þú matt aldrei líta aftur, “segir Jón við strák. Halda þeir svo út í dalina. Þá fer strákur að snúa höfðinu. Hvað ertu alltaf að líta við?” segir Jón. Loksins leit strákur aftur og sá hvalina í hælum þeim. Þetta grunaði mig, “ sagði Jón,  nú kem ég þeim ekki lengra “. Þeir voru skornir þar. Enn er sú sögn að hvalsaðdráttum Jóns að hann hafi sest á seyð og seitt að sér hvalkálf.  Hljóp kálfurinn á land í Reyðarfirði og rann upp alla Reyðarfjarðardali uns hann kom út hjá Kálfshól en þá urðu einhver afglöp svo hann komst eigi lengra. Eigi greinir sagan hvort Jón hafði kálfs þessa not. En af kálfi þessum sega menn að Kálfshóll dragi nafn sitt, þótt þar skjátlist munnmælunum því þegar hét  hann því nafni í fornöld, sem segir í Droplaugasona sögu.

Aftur upp ...

Af Klofa-Jóni

Jón hét maður, Norðlendingur, er hingað kom austur seint á nítjándu öldinni og tók sér bólfestu í Eskifjarðarkaupstað. Byggði hann sér þar kofa og var það kallað í Klofa því það var á millum lækja tveggja. Hann var og kenndur við heimilið sitt. Um það leyti höfðu þeir þar verslun Jón kaupmaður Árnason og Ísfjörð silkivefari.

Jón var kuklsamur og hafði með höndum töflur og galdrabækur. Hugðu menn að hann hefði flúið þangað vegna fjölkynngi sinnar og myndi hann hafa átt illar útistöður við einhverja af sínum líkum nyrðra. Það var mál manna að hann hefði gert kontrakt við kölska. Sumir menn sögðu að hann myndi eiga skollabrók og flæðarmús og draga peninga að sér.  

Jón hafði þann sið jafnan að hann svaf um dag en vakti um nætur og var þá að skrifa. Töldu menn víst að hann væri að eftirrita galdrabækur nokkrar er Illugi eiturkani léði honum. Margir menn gáfu Klofa- Jóni illt auga, enda fóru að hverfa peningar kaupmanna úr búðaskúffum. Kenndu menn Jóni það og hugðu hann draga þá til sín með fjölkynngi. Liðu svo tímar fram.  

Ólafur Ólafsson, sem menn kölluðu kunningja, var til húsa hjá Klofa-Jóni og sannaðist að áliti margra manna það málshátturinn, sækjast sér um líkir, saman níðingar skríða,“ því Ólafur varð síðar tvíhýddur þjófur.  Svo bar til um haust að Ólafur fór einn dag sem oftar með korn ofan í búð til að mala í handkvörn en Jón svar heima sem vant var. Var þá kviknuð óvild hjá Arnesen til Jóns í Klofa. En Jón Arnesen var mesti hæfileikamaður, hreinn og drenglundaður, en þó trúðu menn því almennt að hann vissi fleira en aðrir menn þá orðið. En þó fór svo að annar lækurinn hjá Klofa stíflaðist af aur og grjótskriða hljóp um nótt á kofa Klofa- Jóns og drap hann. Hafa menn haldið að það muni hafa verið mannavöldum því Klofa- Jón var óvinsæll allmjög. Mikið náðist þó úr hlaupinu af eigum hans. Er það sögn manna að Ísfjörð næði peninga ærna en Arnesen í töfurin og bækur einhverjar, skráðar grænum galdrarúnum. Töfurin voru meðal annars hrafntinna, smyrilhaus, hænsnafjöður og mannabein. Tók Arnesen það allt til sín og kvað almenning eigi hafa neitt við slíkt að gera; og  hver tók þar það sem hann náði. Páll snikkari var þá í kaupstaðnum, sonur Ísfelds skyggna. Var kona hans Gróa frá Eyvindará, skörungur í skapi og mjög gáfuð, en Páll þótti eiga allskostar frómur og ólíkur mörgum sínum. Það heyrðu menn um nóttina eftir það að hljóp að kallað var í hlaupinu: Gróa, Gróa, keppur, keppur, vinstur, vinstur, poka, poka,fljótt, fljótt.“ Var Páll þá að tína upp matvæli úr hlaupinu. Var sláturtími liðinn og hafði Klofa- Jón verið búinn að draga slátur mikið til búsins. 

 Aftur upp ...

Óvættur í Slenjugili

Allt fram að þessum tímum hafa hinir svonefndu Reyðarfjarðardalir á Austurlandi þótt nokkurskonar vættastöð, enda eru þeir allvíðlendir sem kunnugt er. Eru þeir einn dalur að norðan og Héraðsmegin og heitir Eyvindardalur. En nærri miðri leið milli Héraðs og fjarða kvíslast hann í fjóra aðaldali. Fagradal vestast, Svínadal, Tungudal og Slenjudal austast. Rennur sín áin eftir hverjum þeirra og falla saman. Heita þær síðan Eyvindará. En þar nærri sem Tungudals- og Slenjudalsá falla í einn farveg var sæluhús á meðan Eskifjörður var aðalverslunarstaður austan lands. Lá kaupstaðarvegurinn þá ofan Tungudal þangað. En Slenjudalur er farinn til Mjóafjarðar. Lengi fram eftir öldum og allt þessa tíma þótti reimt í dölunum hér og þar; hafa reimleikasögur ýmsar gengið um sæluhúsið. Einnig trúðu menn því að í Tunguárgilinu neðan við húsið og jafnvel í Slenjuárgilinu utan við það byggi tröllvættur og gerði ferðamönnum ýmsar glettingar. Um það hljóðar þessi saga:

Einu sinni kom maður neðan Tungudal af Eskifirði og ætlaði á Hólaskóla. Þegar hann kom ofan nálægt sæluhúsinu var kveld komið og tunglsljós. Þá heyrir hann sagt í slenju árgilinu með drunbeljandi röddu: „Hvað heitirðu? Hvers son ertu? Hvaðan kemurðu? Hvert ætlarðu? Og Hvað margra nátta er tunglið?” Hann lætur sér ekki bilt verða og svarar: „Þorlákur (eða Þorleifur) heiti ég – Þorðarson er ég - úr Múlasýslu fer ég – á Hólaskóla ætla ég - níu nátta er tunglið - og viltu vita meira?” Þá heyrðist honum kveða við hlátur í gilinu ærið stórkostlegur  en einskis var hann framar spurður og fór svo óhindraður leið sína. Það þóttist hann vita að hefði staðið á svarinu þá hefði staðið á svarinu þá hefði óvættur þessi hyllt sig og fengið allt val yfir sér

Aftur upp ...

Sæluhúsvofan í Tungudal 

Fyrri á tímum var byggt sæluhús í Reyðafjarðardölum í neðanverðum Tungudal fyrir innan Slenju, þar sem Tungusel var áður, og skammt austur og uppfrá Tungudalsánni. Er þar nokkurt gil að henni. Sæluhús þetta var upphaflega skáli hlaðinn úr torfi og grjóti og ætlaður ferðamönnum þeim sem sóttu úr Fljótsdalshéraði í Breiðavíkurkaupstað sem nú er löngu af lagður. Var hann yst með Reyðafirði. Síðan var hafin verslun á Seyðisfirði og Eskifirði. En meðan sem flestir sóttu í Eskifjörð á 19du öldinni var hús þetta endurreist úr timbri og byggði Sigurðar beykir það þá í minni elstu manna sem nú lifa (1904). Var þá húsið mikið vandaðra en fyrr og loft í því og rúm. Gat það nú rúmað marga menn, enda voru það eigi fáir sem fóru þessa leið í þá daga, en bæja milli nær þingmannaleið og menn oft drukknir í kaupstaðaferðum vetur og sumar. Frá því fyrsta urðu samt mörg slys og mannalát á þessari leið; höfðu menn orðið úti og farist á ýmsan hátt, enda gerðist reimt á leiðinni er fram á leið. Tröllvættur átti og að hafast við í Tunguárgilinu niður frá sæluhúsinu, sem getið er um í tröllaflokknum, og í Slenjuárgilinu útfrá sæluhúsinu þótti ekki hreint. Það tók þó yfir að í húsinu sjálfu hefðist við vofa nokkur eða afturganga er gerði oft vart við sig. Urðu ferðamenn þar oft veikir og skarkali heyrðist niðri og undarlegt umstang þegar menn voru þar um nætur á loftinu.  Gerðust margar sagnir um sæluhúsvofuna. En flestar eru þær nú orðið gleymdar.

Sigmundur hét maður og var Rustikusson, vinnumaður víða á Héraði. Hann var einhuga og harðfengur mjög, orðhákur hinn mesti og svo mikill fjörmaður að menn sögðu hann geta hlaupið allan daginn. Hann átti leið um Reyðarfjarðadal vetur einn og varð dagþrota í sæluhúsinu. Bjóst hann um í loftinu og þótti miður gott að þurfa að vera þar aleinn í myrkrinu en kafaldshríð var úti og náttmyrkur en húsið illræmt. Hann lét aftur lokið yfir uppganginn, leggst fyrir og vill fara að sofa en það getur hann eigi. Allt í einu heyrir hann hark úti og svo er sæluhúshurðinni hrundið upp í vegg af afli miklu. Sigmundur verður feginn og hugsar með sér að þar komi einhver ferðamaður sem verði honum til afþreyingar um nóttina. En þetta brást því sá sem inn kom gerði hark og braukan niðri en kom eigi upp. Þetta gengur langan tíma. Er þessi gauragangur svo mikill að þar brothljóðar í öllu. Verður Sigmundur nú annars hugar en hyggur þó að bíða ef  þetta skyldi vera sjálfur sæluhúsdraugurinn. Eftir nokkurn tíma færist skarkalinn að stiganum og upp í hann, þar næst hrekkur upp hlerinn en upp úr stiganum og upp í hann, þar næst hrekkur upp hlerinn en upp úr stiganum hrökklast hvít flyksa all-ferlag og upp á loftið. Sigmundur sér nú að svo búið má eigi standa, snarast hann þá að vofunni og segir grimmdarlega : ,,Og far þú rétt í ísfrjósandi, sjóðbullandi, grængolandi og hurðarlaust helvíti!” Við þetta kuldaávarp brá flyksunni svo að hún þaut ofan og fer þegar að harkan þar sem fyrr. Nú var kominn vígamóður í Sigmund svo hann stekkur ofan á eftir vofunni og hefir fyrir sér hendur. ,,Farðu til andskotans út,” orgaði Sigumundur. En í stað þess að hlýða ræður þessi djöfull á hann all-óþyrmilega. Sigmundur tók-allharðlega ó móti og urðu þar illfeng skipti. Það fann Sigumundur að glímufélagi hans var alllaus undir höndum svo þó að honum fyndist hann hafa hann undir smaug hann úr greipum hans og réðst óðara á hann aftur. Það þarf eigi að orðalengja að þeir flugust þarna á þangað til í aftureldingu; þá sleit flyskan sig af Sigmundi, þaut út og hvarf í gilið en Sigmundur hneig í öngvit af mæði og ofþreytu á gólfið.

Um morguninn komu þar ferðamenn og fundu hann svo ástígs. Sagði hann þeim frá því sem fyrir hann hafði komið og fór með þeim heim til sín og var þegar jafngóður. Hann var til þess tekinn að vera ófælinn. Frá þessu sagði hann löngu síðar Einari vert Hinrikssyni og hefur hann játað viðburð þennan satt sagði hér.

Annar maður er sagt að þar ætti einnig í handlögmáli við þennan ófögnuð á líkan hátt. Og jafnan þótti vofa þessi gera ferðamönnum skráveifur.

Jón bóndi Einarsson á Víðivöllum yrti í Fljótsdal, einhver með ráðvöndustu mönnum og hið mesta karlmenni, varð um vetur dagþrota með öðrum manni og næturgestur í sæluhúsinu. Hundur var með þeim. Þeir Jón komu úr Eskifjarðarkaupstað, höfðu hressingu og voru vel kátir. Þegar þeir voru sestir að í sæluhúsinu tók seppinn að ýla og úfna á svip, reis á honum hvert hár í garð eftir hryggnum. Því næst hrökk hann framan frá dyrum inn að stafni og í kringum þá eins og hann sé að verja þá. Og um leið verður manninum illt svo Jón mátti eiga frá honum ganga. Þetta gekk fram í dögun þangað til Jón brást upp og lætur greipar sópa um húsið og biður djöful þennan að dragast burtu til hins neðsta . Við þetta brá svo að maðurinn varð alheill á sömu stund og hvutti rólegur .

Steindór í Dalhúsum , Hinriksson , var ,,satt að segja” kenndur lítilsháttar á ferð uppí dalina hjá Sæluhústóftinni gömlu veturinn 1902-3. Sá hann þá í tunglsglætunni einhvern pauran nærri hnöttóttan sitjandi róandi á klöpp nærri tóftinni og glápa við tunglinu . Steindór glæddi ganginn , sneri úr vegi og var ekki lengi heim án þess að líta við .   ,,Mikil skelfing , það er öldungis satt.”  Mátti vinda nærfötin hans þegar heim kom.

Enn er þess getið að Árni Brynjólfsson , Grím(úlf)ssonar prests að Eiðum , Bessasonar , var á ferð upp Tungudal með hestalest og kom að sæluhúsinu; var þá dagur þrotinn og komið snjóbleytukafald og sá hann sig neyddan til að æja þar , tekur ofan , heftir hesta og sleppir á beit hjá gilinu , fer inn og leggst fyrir að loknum snæðingi . En ekki er hann fyrr sofnaður en hann þykist sjá mann , lágan og afar þrekvaxinn , koma upp úr gilinu . Allur var hann jafn-mórauður á lit , engu síður hendur og ásýnd en annað . Árni þykist sjá að hann ætlar að eiga eitthvað við hestana en Árni var einhygi og karlmenni og lét sjaldan ganga á sinn hluta . Hann þykist kalla til hans og segja honum að láta hestana vera . Hverfur hinn þá í gilið og segir um leið:  ,,Svei!” Að vörmu spori kemur hann aftur og fer að rjála við hestunum .  ,,Sjáðu þá í friði,”  þykist Árni segja.  ,,Nei,”  svarar draugsi en hægir þó á sér . Í þriðja sinn ræður hann á þá .  ,,Sjáðu hestana kyrra!”   grenjar Árni og sprettur upp glaðvakandi og hleypur út.   ,,Svei , nei , “ segir draugsi en hrekkur þó undan Árna sem eltir hann í gilið og kvað vísu þessa um leið , því nú var draumurinn orðinn að veruleika og draugsi meira en hugarburður :

Því má ei beita í þessu fjalli

og þar með leita skjóls hjá kalli

ef snjóhreytan hættir ei .

Vil ég þig þreyta í vísna spjalli

ef veldurðu bleytu og ofanfalli .

Svaraðu fleiru en svei og nei 

,,Svaraðu fleiru en svei og nei, “ endurtók gilið eins og draugsi æti eftir Árna . Árni hafði haft trú á því að draugsa myndi vera að kenna um hríð þá sem á var . Ekkert fékk hann svarið utan orðin ,,svei”  og  ,,nei”.  Litla stund dvaldi Árni þar lengur , lagði á hesta sína , lét upp og hélt út Dalinn og heim til sín og sagði frá viðburði þessum . Árna þessa er getið í Dísuþættinum og bjó hann þá á Hlíðarenda , nýbýli er hann byggði sér á Lágheiði í Hróarstungu , þar sem nú heita Árnatættur . Systir Árna var Oddný er lengi var í Fljótdalshéraði hér og þar , móðir Jóhanns Hallgrímssonar snikkara , og heyrði ég Jóhann og fleiri þau frændsystkini minnast þessar atburðar en þau vantaði í vísuna.

Aftur upp ...

Saga Bjarna - Dísu 

Þorgeir er maður nefndur; hann bjó um tíma að Þrándarstöðum í Eiðaþinghá. Hann átti nokkur börn, þar á meðal Bjarna og Þórdísi er hér verður sagt frá. Voru þau þá fullorðin er þessi saga gerðist. Bjarni var maður mikill vexti, lotinn og hrikalegur og eigi talinn lánlegur en meinhægur í lund. Þórdís var honum ólík. Hún var svarri í geði en fríð sínum og skrautgjörn, enda réðst hún þerna á Eskifjarðarkaupstað. Jók það fremur skrautgirni hennar og ofmetnað og barst hún mikið á í klæðaburði. Þó réðst hún þaðan í Austdal í Seyðisfirði hvað sem til kom og hvernig sem á því stóð. Segir svo Katrín að Dvergsteini, nær því tíræð, að Þórdís væri þar í Austdal þegar hún réðst til að skreppa upp í Hérað með Bjarna bróður sínum er þá var í Odda í Fjarðaröldu. Var þetta rétt um 1800.

Þar réðst Bjarni til að skreppa ofan í Eskifjarðarkaupstað eftir einhverjum nauðsynjum því þá var enn lítil fastaverslun í Seyðisfirði. Þórdís afréði að bíða hans á meðan hjá foreldrum eða skyldmennum að Þrándarstöðum. Bjarni kom bráðum aftur og hafði nokkurn bagga; þar á meðal fjögra til átta potta brennivínskút og eitthvað fleira úr kaupstaðnum. Þar við bættist hangiket er hann hafði í nesti. Bjarni var að Þrándarstöðum um nóttina og hugði á heimferð að morgni komanda og Þórdís með honum. En um morguninn var veðurhvinur í norðri og bakki nokkur og ískyggilegt um að litast. Bjóst Bjarni þó hið snarasta og Þórdís líka. En Bjarni aftók með öllu að að hún færi.

Var hún og illa klædd til að verjast gaddbyl, í léreftskjól. Bjarni leyndist af stað með bagga sinn og fór sem fætur toguðu upp fjallið. En er hann leit við var Þórdís þar komin á hæla honum. Hann herðir þá undanhaldið allt hvað hann getur, hún eftirförina að sama skapi og dró heldur á hann. Þegar kom upp á brún lét Bjarni undan og beið hennar.

Þegar þau komu austur á heiðina gerði á þau blindbyl svo þau fóru brátt vill vegarins og villtust út og austur yfir Stafdalsfell og gátu brotist ofan í Stafdal. Þá var veðrir orðið svo glórulaust og ófærðin svo mikil að Þórdís var uppgefin og Bjarni þreyttur mjög og vissi eigi hvar þau voru þá. Sá Bjarni þann kost bestan að berast þarna fyrir. Gerði Bjarni þar snjóhús eða lét fenna yfir þau og var það í djúpum botni. Alltaf voru Þórdís og Bjarni að kýta hvort við annað með skömmum og ádeilum, einkum hún. Þó bað nú Þórdís Bjarna um að yfirgefa sig eigi fyrir nokkurn mun. En er Bjarni sá sér færi laumaðist hann úr snjóhúsinu. En annaðhvort ásetti hann sér þá þegar að reyna að leita mannhjálpar í byggð eða hann fann eigi húsið aftur fyrir dimmu. Verður nú eigi annað af honum sagt en það að hann lendir ofan í fjallið upp frá Fjarðarseli, komst þar í ógöngur og hrapaði. Hafði hann sig þó að Fjarðarseli á vökunni úrvinda af þreytu og hugarangri og sinnulaus og mállaus. Sat hann alla vökuna þegjandi og ífram. Var honum hjúkrað sem hægt var og hresstist hann við svefn og næringu. Morguninn eftir var svo bráð af honum að hann sagði allt um för sína. Datt mönnum þá allur ketill í eld. Björn, er búið hafði að Þórarinsstöðum, bjó þá í Fjarðarseli. Hann kvað mein mikið að Bjarni gat eigi fyrr sagt frá þessu svo hægt hefði verið að safna mönnum til að hafa upp á Þórdísi. Sendi hann þá út að Firði. Þar bjó sá maður er Þorvaldur hét Stígsson, garpur mikill að afli og áræði. Snerist hann þegar til ferðar með einum eða tveimur öðrum mönnum. Voru hinir búnir er þeir komu að Fjarðarseli. Fóru nú allir, Bjarni, Þorvaldur, Björn sonur Bjarnar í Fjarðarseli og dugandi maður sem Jón hét og einhverjir fleiri. En þeir urðu aftur að snúa fyrir dimmu. Höfðu þeir grind, nautshúð og næringu handa Þórdísi ef hún fyndist lifandi. En þeir urðu aftur að snúa fyrir dimmu. Svipaðar tilraunir voru fleiri gerðar en allt fór að einu. Hún fannst eigi fyrr en á sjötta dægri þegar rofaði í hríðina. Þá var það þegar stjarna var í nónstað og þeir komnir upp á Neðra – Staf svonefndan að þeir heyrðu hljóð svo mikið að bergmál kvað við í Bjólfstindi og næstu fjöllum. Þeir gengu á hljóð þetta upp í Stafdag og fór Þorvaldur fyrir en hinir voru þá ærið skelkaðir. Þá sáu þeir Þórdísi. Sýndist þeim á henni lítil mannsmynd. Fötin stóðu út af henni gaddfrosin en hún ber nærri upp að mitti. Hárið var fullt af snjó og skrúfað upp. Sýndist þeim sem hún stæði þarna hnokin í hnjáliðum nokkur skref frá því sem snjóhúsið var. En nú var það fokið burtu. En þó sáu þeir félagar að Þórdís hafði fetað þangað þrjá til fimm faðma far í far og stokkið öfug í bælið aftur. Hafði hún að þeim virtist gert þetta tvívegis og ætluðu þeir að þá hefði hún gefið hljóð af sér í hvorutveggja skipti. Þóttust þeir sjá að hún var á leiðinni með það að ganga aftur fullri afturgöngu því það var trú manna að þegar svona bæri að þá væri vís afturgangur. Kölluðu menn þetta hálfan afturgang. En hefði hún tekið þriðja stökkið þá væri það fullkominn afturgangur. Þeir félagar þóttust þú sjá hvað verða vildi, urðu skelkaðir, hrukku undan og sneru frá biðjandi fyrir sér. Þorvaldur öskraði á þá og spurði hvort þeir ætluðu að láta djöfulinn æra sig sem hann kvað á. Óð hann nú á söslunum móti Þórdísi. Er það sumra manna sögn að hann reiddi þá upp sterka varreku er hann hafði í hendi og færði hana í höfuð hennar áður en hún náði að taka þriðja stökkið. Hneig hún þá niður en Þorvaldur tók hana þegar og hneppti hana niður á grindina. Rak hún þá upp orghljóð ógurlegt. ,,Ekki skaltu, Dísa mín, hugsa þér að hræða mig,” sagði Þorvaldur. Skar Bjarni þá frostgarðinn utan af henni að boði Þorvaldar. En Þorvaldur færði hana í ystu buxur sínar og sagði: ,,Hverjum sem þú fylgir hér eftir skaltu ekki fylgja mér.” Þótti þetta öruggt til að varna því. Sagt er það að þeir fyndu kútinn Bjarna í snjóhúsinu og væri hann tómur. Hafði hún auðsjáanlega bragðað á honum með hangna ketinu. Ætla það flestir vantrúaðir menn nú á dögum að Dísa hafi haldið lífinu við með brennivíninu og hafi verið vínæði hljóðin og stökkin en hún þá þó farin að frjósa eftir að hún hafði farið úr snjóhúsinu. Halda þeir því að Þorvaldur hafi drepið hana í oftrúaræði sínu. En þeir sem þekkja afreksverk hennar eftir dauðann sætta sig við hitt sem áður segir að hún hafi þarna gengið þegar aftur hálfum afturgangi.

Þeir félagar óku nú Dísu heim að Fjarðarseli. Var hún færð í kofa einn þar í bænum. Þar var tryppi eitt fyrir. Heyrðu menn eitthvert þrusk þar um nóttina. Um morguninn var tryppið dautt. Þótti mönnum sem það hefði fælst og sprengt sig. Nú er kofi þessi búr. Bóndi og son hans sátu alla náttina með broddstafi á pallsnöf og lögðu fram í göngin. Það þótti nú sýnt með þessu að eigi ætlaði Dísa að liggja kyrr. Var þá útför hennar ger og hún grafin að Dvergasteini. Morguninn eftir sáu menn stóra holu ofan í leiði hennar. Var hún fyllt þegar. Fór svo oftar og allt þar til Þorsteinn skáld Jónsson, er þá var prestur að Dvergasteini og kallaður fjölfróður mjög, sópaði ofan í holuna og las eitthvað yfir henni. Sást þá aldrei hola ofan í leiðið eftir það. En eigi dró það úr afturgangi Dísu (svo var hún kölluð einatt eftir það að hún gekk aftur). Þóttust nú margir sjá hana í fylgd með Bjarna og öllum þeim er í fylgdinni voru. Engum fylgdi hún þó fastara en Þorvaldi þótt hann klæddi hana í buxurnar. Bjarni varð eftir þetta ólánsubbi, rataði í ýmis slys og vandræði, var þó mesta meinleysi. Var hún við hann kennd og kölluð Bjarna-Dísa en hann oft Dísu-Bjarni. Eftir þetta var Bjarni á Selsstöðum. Hafa svo sagt þeir menn er honum voru þar samtíða að enginn vissi betur en honum væri þá varla vært neinstaðar úti fyrir Dísu. Kvað svo rammt að því að kveld eitt kom Bjarni framan frá Dvergasteini og frá syni sínum, er þar lá, og gekk á hjarnbroddum. Sáu menn út um glugga að Bjarni kom hlaupandi þar framan Klifið svo hart sem hann gat farið og inn í baðstofu á hjarnbroddunum. Sagði hann Dísu hafa elt sig þá óþyrmilega. Bjarni var kvongaður og átti börn. Drenginn missti hann á Dvergasteini efnilegan; var Dísu kennt það sem fleira. Bjarni var einnig í Nesi í Loðmundarfirði. Þar lést kona hans af barnsförum og var borin í bænahús eða skemmu gagnvart bæjardyrum. Bjarni var úti um kveldið og heyrði þar þrusk nokkurt. En hann mun hafa óttast Dísu og þorði eigi að vitja um það. Morguninn eftir, þegar þar var komið, sáu menn verksummerki. Þar lá konan önduð á gólfinu og tvö börn í öðru lagi; hafi hún raknað við og alið þau en andast síðan.

Eftir þennan atburð varð Bjarni enn meira hjá sér og eirði eigi framar í vistum heldur ferðaðist víðsvegar um Austfjörðu og fylgdi Dísa honum hvar sem hann fór sem skugginn hans. Vildu og sumir menn eigna Dísu þetta voðalega tilfelli með konuna. Þess er getið að Bjarni fengi draugavarnir hjá svonefndum Latínu-Magnúsi að Sævarenda og gerði Dísa honum sjaldan mikið illt upp frá því. Og illt þótti mönnum að glettast við hann. Gerðust þó ýmsir gárungar, heimskingjar og oflátungar til þess að færa háð að honum. Er svo sagt að hann fyndi það fljótt því greindur þótti hann allvel en fáorður mjög svo hann svaraði því sjaldan með öðru en misþóknun sem sást á svip hans og sagði þá jafnan þunglyndislega: ,,Ójá, ójá.” Flestum mönnum varð það að illu er færðu spott að honum og verða þess enn sögð dæmi. Þrettán börn missti Bjarni ung og var Dísu kennt um þau öll

Aftur upp ...

Frá séra Jóni og Pétri sýslumanni 

Jón prestur kallaður eldri, sonur Stefáns prests, sona Páls prófasts Högnasonar og Þóru dóttur Stefáns prófasts og skálds í Vallanesi, fékk Vallaneskall 1768 eftir föður sinn. Sagt er að hann væri hagorður og gáfumaður mikill og eigi laus við forneskju en þó virtur og vinsæll. Það er sögn gamalla manna að hann byggi ógiftur með bústýrum fyrst um sinn og yrði blekktur af þeim. Því er mælt að Árni landseti og frændi hans Gíslason í Höfn í Borgarfirði kvæði til hans sem svar mót glettni prests: 

Ekki er vert að ýfa mig til kvæða

Af presti þeim er flengir fljóð,

Fær þó varla úr þeim jóð

Og sjálfur mun á sínum strokki bræða. 

Má ætla að vísa prests hafi eigi verið heldur góð er þessi var svar á móti. Pétur sýslumaður Þorsteinsson hélt þá Múlasýslu. Hann var einn af allra skörulegustu og merkustu valdsmönnum hér á sinni tíð, tryggur vinum en  harður og grimmur óvinum. Hann var álitinn fjölfróður sem fleiri lærðir menn þeirrar tíðar. Það var mál manna að samdráttur væri með presti og dóttur sýslumanns er Hólmfríður hét, og að vilja Péturs. En þá fóru að verða ýmsar greinar á til ósættis á milli þeirra höfðingjanna svo þar gerðist óvild mikil. Telja menn aðalorsökina að báðir hafi þeir verið læknar af eðlisfari og látið meðöl frá sér og hafi prestur þótt enn betri. Þegar þetta missætti var orðið með þeim er sagt að prestur leiddi hug sinn frá Hólmfríði og kvæntist Gróu, dóttur séra Eiríks að Kolfreyjustað Einarssonar (1748-88). Það bætti eigi úr. Skömmu síðar er mælt að séra Jón færi í Eskifjarðar- eða Breiðuvíkurkaupstað.  Þegar hann reið heimleiðis kom hann að Ketilsstöðum og bað um að drekka. Hólmfríður færði honum drukkinn. Síðan er sagt að hún hafi hellt á staup og boðið honum. Klerkur drakk úr staupinu og brá við og sagði: „Þar tókst ykkur það, ólukkukindunum, en þó ætlaði ég þér það síst, Fríða.” Reið hann þá heim skyndilega eftir stuttar kveðjur. Upp frá þeim tíma var klerkur geðveikur og óður aðra stundina. Kenndu trúaðir menn það drykknum og þótti sem illur andi hefði leynst í honum. Þóttust og sumir sjá ára nokkurn í för með presti og fólki hans, í skrautklæðum með gylltum hnöppum á baki. Þótti sem hann fylgdi lengi síðan ættinni.

Upp frá þessu var prestur mesti mótlætismaður þótt af honum bráði aðra stundina.  Ýmsra bragða var leitað að lækna hann. Var sent eftir séra Þorsteini að Skorastað Benediktssyni, kunnáttumanni. Hann lét sem reynandi væri að særa hinn illa anda frá presti með bænahaldi ef menn vildu fara að sínum ráðum. Lagði hann svo fyrir að Jóni presti væri haldið, af völdum mönnum, undir predikunarstólnum meðan hann fremdi bænagerð yfir honum. Hann bað þá menn, er valdir voru til að halda presti, muna sig um það að sleppa honum eigi fyrr en hann leyfði, hversu vel sem hann bæði og hvernig sem hann bæri sig.  „En þó uggir mig að hér verði gæfuskortur á.”

Fóru menn nú í kirkju. Skrýddist séra Þorsteinn og hóf svo lestur og bænagerð en menn héldu séra Jóni. Síðan tók séra Þorsteinn að særa andann. Fór séra jón þá að ókyrrast og kom æði mikið yfir hann og bað að sleppa sér með illu og góðu og braust um fast, kvað sig ætla að slitna sundur eða kafna. Hinir héldu sem áður. Herti nú séra Þorsteinn á særingunum svo allir titruðu af ógn og ótta en prestur braust um sem hamrammur væri þangað til hann varð of sterkur gæslumönnum og sleit sig lausan af þeim og hljóp út.  „Nú fór sem mig uggði,” sagði séra Þorsteinn, „hefðu þið eigi misst hann nú hefði ég sært andann frá honum innan stundar. Er nú úti um mína hjálp”. Sagt er að hann hafi þá (aðrir segja séra Eiríkur nokkur) látið þar næst opna baðstofumæni yfir séra Jóni og taka hann þar út. En ekkert dugði því presti batnaði aldrei geðveikin. Lifði hann 6 ár síðan og dó 1783, 37 ára. Synir hans voru þeir Laga-Jón í Bót og Eiríkur að Egilsstöðum, merkir menn.

Páll prestur Guðmundsson hélt síðan kallið í 6 ár.  En þá fékk það, 1783, séra Jón yngri Stefánsson en Stefán og séra Jón eldri voru systkinasynir. Sagt er að einu sinni hafi Pétur sýslumaður hellt á staup og boðið honum en hann svaraði: „Nei, þakka þér, herra minn, en þú skalt ekki láta mig drekka djöfulinn eins og hann nafna minn.”

Aftur upp ...