Viðtal við Stefaníu Sigurbjörnsdóttur

Viðtalið tók Kristján Jóhann Bjarnason

 

Að vera ung

Ég átti heima á Stöð á Stöðvarfirði.  Ég fæddist 22. febrúar árið 1926.  Pabbi minn var frá Stöð en mamma var frá Gestsstöðum á Fáskrúðsfirði.  Pabbi var bóndi og mamma var húsmóðir.  Við vorum fimm á heimilinu.  Húsið var þrjár hæðir, kjallari, miðhæð og loft.  Það var mjög gaman að vera barn.  Ég var oft á hesti með pabba að sinna kindunum.  Ég vann ýmis störf, hugsaði um kindurnar, þvoði þvott, þvoði gólf og margt fleira.  Við krakkarnir lékum okkur oft í útilegumannaleik, stórfiskaleik, feluleik og í boltaleikjum t.d. yfir.  Við áttum bolta og brúður og margt fleira.  Ég man alltaf eftir því þegar vinnukonan lokaði mig einu sinni inni í búri þegar ég var óþæg, þá var ég þriggja ára.

 

Fermingin 

Ég fermdist í kirkjunni á Stöðvarfirði.  Ég og Borghildur vinkona mín fermdust saman.  Ég gekk til spurninga frá Stöð út í þorp.  Ég þurfti að læra nokkuð marga sálma og Kverið.  Í fermingargjöf fékk ég slæðu, veski, skáldsögu og ljóðabók.  Það var haldin smá veisla í Stöð.  Í veislunni voru fínar tertur, súkkulaði og kökur.  Gestir voru þar nokkrir.

  

Barnaskólinn

Það var bara einn skóli, með einum kennara sem einnig var skólastjóri.  Mér líkaði ágætlega í skólanum en fannst hundleiðinlegt í leikfimi.  Í skólanum, lærðum við landafræði, biblíusögur, náttúrufræði, dönsku, íslensku, málfræði, réttritun, reikning, teikningu og leikfimi.  Skólinn var frá níu á morgnana til klukkan tólf og stundum einnig eftir hádegi.  Ég var í skóla í eitt og hálft ár í allt.  Reyndar kenndu pabbi og mamma mér líka.  Skólinn byrjaði í september og var út apríl.

 

- Til baka -