Viðtal við Sigurþór Hreggviðsson

Viðtalið tók Dagbjört Ósk Hreggviðsdóttir

 

Þegar ég var ungur

Ég fæddist 17. ágúst árið 1936. Ég fæddist í gamla Prestshúsinu á Eskifirði. Húsið sem ég átti heima í þegar ég var lítill hét Dvergasteinn. Húsið var lítið, það var bara stofa, gangur og eldhús og svo voru tvö svefnherbergi uppi á lofti. Foreldrar mínir hétu Jóhanna Jóhannsdóttir og Hreggviður Sveinsson. Mamma mín var frá Djúpavogi og pabbi minn var frá Stuðlum í Reyðarfirði. 

Fyrsta minning mín frá barnæskunni var þegar stríðið var og þá sá ég fyrst hermenn og ég sá fullt af þýskum herflugvélum og það ár fékk ég síðan slæman kíghósta.  Leikirnir sem ég og félagar mínir lékum okkur í hétu slagbolti (kíló) og yfir.  Þegar ég var níu ára þá fór ég að vinna og ég var að vinna við það að bera út og ég bar út öll blöð og allan póst nema Moggann.  Svo var ég líka að vinna á símstöðinni og á þessum stöðum var ég að vinna alveg þangað til ég var 16 ára.  Maturinn er mikið breyttur frá því ég var ungur. Þá voru engir hamborgarar og franskar og engir kjúklingar, bara fiskur og plokkfiskur og svolítið kjöt.  Ég var ekki mikið að leika mér þegar ég var yngri því ég byrjaði svo snemma að vinna. Ég vann ekki nein verk á heimilinu því ég vann úti því pabbi minn dó þegar ég var níu ára og þá þurfti ég að hjálpa til með heimilið. Ég var yfirleitt bara í skóla þegar ég mátti vera að. Ef ég var í skóla á morgnana þá fór ég í vinnu eftir hádegi og ef ég var í skóla eftir hádegi þá fór ég í vinnu fyrir hádegi. 

Jólin voru þannig að það var skreytt á Þorláksmessukveld og þá var jólatréð látið upp og skrautið og allt þrifið.  Þá fengu menn aðallega bækur og svoleiðis í jólagjöf. Börnin þá sáu bara jólasveina einu sinni á ári því þá komu þeir bara einu sinni til byggða. Við borðuðum hangikjöt og svona þetta venjulega sem tíðkaðist um jólin.. Þegar jólin voru þá var ég alveg að vinna til átta að kveldinu til og svo mátti ég bara fara heim og hafa jól.

Einu sinni þá fékk ég að fara til Seyðisfjarðar með skipi og ég þurfti að vinna fyrir kallana á skipinu á leiðinni. Ég var að vinna við það að hafa kaffi fyrir þá og kveldkaffi og svona, og í því fólst að fara út í bakarí og ná í brauð og smyrja fyrir þá og hita kaffi og ég var að þessu í viku og eftir það fórum við heim.

 

Barnaskólinn

Kennararnir mínir voru Skúli Þorsteinsson skólastjóri svo var Ragnar Þorsteinsson og hann kenndi bókband og líka Einarína Guðmundsdóttir.  Einu sinni var strákur sem sat við hliðina á mér og það var gefið frí í skólanum og hann fór að sigla á járnbáti út á sjó og féll í sjóinn og drukknaði. Það var skelfilegt.  Ég var ekki búinn að hugsa mikið um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór, ég var bara að vinna og það var bara það sem ég ætlaði að gera áfram.

 

Fermingin

Ég fermdist á hvítasunnunni 1950. Presturinn hét Sr. Þorgeir Jónsson.  Veislan var haldin hjá frænda mínum og ég fékk armbandsúr og hjól í fermingargjöf.  Ég fermdist í svörtum fötum í hvítri skyrtu og  með hvíta slaufu. Ég þurfti alveg að læra dálítið mikið fyrir ferminguna, en presturinn kenndi mér aðallega fyrir ferminguna.   

        

 

- Til baka -