Viðtal við Sigurð Magnús Magnússon

Viðtalið tók Aníta Ösp Ómarsdóttir

 

Þegar ég var ungur

Ég fæddist árið 1936 í Bolungarvík og var þar upp alinn. Húsið mitt var úr timbri og var mjög lítið og þröngt. Móðir mín hét Sigríður Níelsdóttir og faðir minn Magnús Haraldsson.  Fyrsta minning mín var þegar móðir mín kom heim frá Ísafirði og færði mér myndabækur.  Leikirnir sem krakkarnir fóru í voru slagbolti, fallin spýta, skessuleikur, hverfa o.fl.  Ég og vinir mínir fórum í leiki á daginn.  Það skemmtilegasta sem ég gerði var að leika mér i snjónum að búa til snjóhús og fleira.  Það var meira borðaður súrmatur og fiskur og yfirleitt var soðinn fiskur en ekki steiktur. Húsverkin mín voru að vaska upp.  Dótið mitt var magasleði, leggir og horn en með þeim bjó ég til sveitabæi og svo átti ég báta. Mig langaði rosa mikið í reiðhjól en ég keypti mér reiðhjól þegar ég var 11 ára.  Ég vann mér inn peninga með því að stokka upp lóðir.  Ég ætlaði alltaf að verða skipstjóri og varð það.  Stundum þurftum við að moka okkur út úr húsinu dag eftir dag, stundum í hálfan mánuð.

Það var smíðað jólatré úr kústskafti og sett á það greinar, svo var vafið í hringum jólatréð jólapappír og síðan voru settar litlar körfur á það sem fólkið bjó til og sett kerti ofan í körfurnar og kveikt á þeim.  Síðan var gengið í kringum jólatréð og sungin jólalög. Það voru búnir til músastigar og þeir voru hengdir upp út um allt húsið.  Það var bakað mikið t.d. smákökur og lagkökur. Krakkar vildu helst fá bækur og spil í jólagjöf.  Krakkarnir trúðu á jólasveina. Þeir voru i sauðskinnsskóm, ullarbuxum, ullartrefla með ullarhúfu og á þeim var skott.  Það var sérstakur jólamatur sem var hangikjöt og uppstúf. Það voru jólaveislur haldnar.

Þegar ég var aðeins 5 ára þá var ég frammi í vör og þar voru tveir strákar á fermingaaldri á pramma.  Þeir voru að róa þegar ég kallaði og spurði hvort ég mætti vera með.  Þeir sögðu já og reru að steini þar sem ég stóð.   Ég ætlaði að stíga á prammann þegar þeir reru í burtu og ég datt út í sjó og var nærri drukknaður.  Ég var bara svo heppinn að það var maður að vinna við bátinn sinn út á vör, hann bjargaði mér með því að blása í mig lífi.

 

Barnaskóli

Ég byrjaði í skóla 7 ára, skemmtilegasta fagið var stærðfræði.  Ég hafði ágætis kennara.  Mér fannst skemmtilegt í sögu, þá sagði kennarinn okkur sögur. Það var líka gaman i söngtímum.  Ég vaknaði kl 8 á morgnana og fór i skólann og þegar ég var búinn fór ég út að leika mér í 1-2 tíma en þá fórum við inn að læra.   Eftir það fórum við krakkarnir aftur út að leika og reyndum að finna einhverja til að leika við. 

 

Fermingin

Ég fermdist í Bolungarvík þann 27. maí, á laugardegi árið 1950.  Presturinn hét Páll. Við þurftum að læra trúarjátningu og nokkra sálma.  Já, það var veisla hún heppnaðist ágætlega.  Ég fermdist í svörtum jakkafötum og  fékk peningaveski, rakvél og 500 kr. og ýmislegt fleira í fermingargjöf.

 

- Til baka -