Viðtal við Regínu Thorarensen

Viðtalið tók Emil Thorarensen

 

Þegar ég var ung

Ég fæddist á Stuðlum í Reyðarfirði, 29 apríl 1917.  Faðir minn var frá Úlfsbæ í Norður-Þingeyjarsýslu og móðir mín var fædd og uppalin á Stuðlum.  Hún var dóttir Sigurbjargar Halldórsdóttur og Bóasar Bóassonar.  Pabbi var bóndi og útskrifaðist frá Bændaskólanum í Ólafsdal sem var eini búnaðarskólinn í landinu en skólastjórinn stofnaði skólann upp á eigin spýtur.  Mamma annaðist heimilið eins og venja var þá til.  Á heimilinu voru oft 14-18 manns og oft var voðalega mikill gestagangur þar.  Foreldrar mínir voru mjög gestrisnir.  Húsið okkar var geysilega stórt á þess tíma mælikvarða.  Ég gæti trúað að það hafi verið um 200 fermetrar.  Það voru 3 hæðir, kjallari og svo var hæð og uppi á loftinu voru svefnherbergi.  Það var svo oft mikill gestagangur að þröngt var og stundum vorum við látin sofa úti í hlöðu. Það eina sem mér sárnaði við foreldra mína var að aldrei var tekin nein greiðsla af gestum þó þeir dveldu marga daga.  Maður má ekki ganga of langt í gestagangi, þó ég sé hér gestur nú þá held ég að ég mundi aldrei láta börnin mín sofa í hlöðu svo gestir gætu verið á heimilinu.  Mér fannst mjög gott að vera barn, það var frjálslegt og gott.  Við höfðum mikið að gera, þurftum að vinna mikið en það var góður og mikill matur.  Pabbi var á undan sinni samtíð, hann var í Danmörku í tugi ára og hann flutti inn fyrstu svínin sem komu á Austurland og gylturnar áttu 10 til 12 grísi og sátum við yfir þessu alltaf í viku eftir að þau áttu grísina sína.  Litlu grísirnir voru seldir svona 2-3 mánaða og þeim var svo slátrað til heimilisins. Það má segja að faðir minn hafi kennt Íslendingum að borða svínakjöt, það er mér óhætt að segja.  Mér fannst alltaf skemmtilegast að vera í heyskapnum á sumrin.  Þegar ég var komin eftir fermingu þá mjólkaði ég alltaf eina eða tvær beljur kvölds og morguns, það voru 7 beljur í fjósinu og kálfar.  Það var farið í marga leiki á Stuðlum, bæði þegar gestir komu og eins um hátíðir. Það var farið í blindingaleik (hollin skollin), útilegumannaleik og fótbolta um helgar. Jólin voru ógleymanleg heima á Stuðlum, farið í kringum jólatré og fleira.  Ég minnist nú ekki neinna sérstakra leikfanga.  Það var eftirminnileg hve gaman var hjá Jóni dýralækni á Selfossi en þangað fór ég haustið 1944.  Þar var gaman að vera.

 

Fermingin

Ég fermdist í kirkjunni á Reyðarfirði.  Presturinn hét séra Stefán Björnsson og hann var bóndi á Hólmum á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar.  Við vorum átta sem fermdust það árið.  Við fermingarbörnin vorum alltaf tekin hverja helgi í messu á Reyðarfirði og þá var okkur hlýtt yfir. Presturinn hafði okkur aldrei hjá sér á Hólmum.  Hann kom bara um helgar reglulega.  Ég man sálmana ennþá sem við þurftum að læra.  Ég man sálmana því það var alltaf lesinn upp sálmur á hverjum sunnudegi og þá lærði maður sálmana svona að sjálfu sér.  Það voru nú ekki miklar gjafir en ég man að ég var svo lítil að ég var ekki fermd á skautbúningi eins og systur mínar sem voru stórar.  En seinna varð ég bara stærri en þær.  Það var engin veisla heldur voru sauðbökur.  Við fengum okkur góðan mat um kvöldið, hangikjöt og svínakjöt og svo var byrjað að vinna.  Ég man eftir deginum áður en ég fermdist þá voru pabbi og ég að eiga við sauðburð til kl. 11 um kvöldið.

 

Barnaskólinn

Ég var nú bara aldrei í skóla en það var alltaf kennt á Stuðlum.  Það var fenginn farkennari sem kallaður var.  Það var einhver maður sem var vel læs og skrifandi fenginn til að kenna.  Það var nú ekki verið að tala um lærðan mann þá, en við fórum alltaf út á Reyðarfjörð í próf og það gekk bara þokkalega.  Ég man eftir kennurunum Eyjólfi Kristjánssyni og Sveinbirni Guðmundssyni á Reyðarfirði, það var mikilhæfur kennari og svo Runólfur heitinn.  Lærdómurinn fór þannig fram að farkennarinn kom heim og okkur var kennt 4-6 vikur í einu held ég, tvisvar sinnum yfir veturinn.  Það leið langt bil þar til kennarinn kom aftur og þá áttum við að læra á meðan.  Önnur kennsla var ekki nema pabbi ætlaði að kenna einn veturinn en þegar gestir komu þá fengum við frí og við vorum voða fegin þá.  En þetta var ekki hægt og ég klagaði þá til Jóns dýralæknis, hann var í skólanefnd.  Ég man eftir að ég var voða mikil eftirherma og var að herma eftir kennurunum.  Eyjólfur talaði dálítið flámæltur en hann var einkar góður kennari.  Pabbi var ekkert of hrifinn af honum en mömmu var mjög vel við hann.  Hann var mikilhæfur kennari hann Eyjólfur þó hann væri ólærður.  Hann hafði aldrei notið leiðsagnar kennara, né farið í barnaskóla sjálfur. Hann lærði bara heima af sjálfum sér.  Foreldrar hans kenndu honum.  Hann átti góða móður sem að kenndi krökkunum sínum að lesa og þetta komst nú allt vel áfram.

 

- Til baka -