Viðtal við Óla Fossberg Viðtalið tók Símon Benediktsson Mér er minnistæður fermingardagurinn minn. Ég átti að fermast í Akureyrarkirkju í apríl 1950. Presturinn sem átti að ferma mig hét séra Friðrik J. Ragnarsson. Við vorum á milli tuttugu og þrjátíu börnin sem áttum að að fermast þennan dag. Við vorum búin að ganga til prestsins allan veturinn eins og lög gera ráð fyrir og lærðum mikið af kvæðum i kverinu og líka sálma. Nú ætla ég að segja frá því hvers vegna ég fermdist ekki þennan dag. Ég var aleinn uppi hjá afa mínum og ömmu. Þau voru í sértrúarsöfnuði sem hét Sjónarhæðarsöfnuðurinn. Vegna trúarástæðna vildu þau ekki láta ferma mig þar sem ekki er getið sérstaklega um ferminguna í biblíunni. En ég fékk að ganga til prestsins og ég fékk líka óskaplega falleg ný föt og nýja skó sem ég klæddist í daginn sem skólasystkini mín fermdust. Svoleiðis var að á fermingardaginn, þá gáfu þau mér hársnyrtingu ég fór i hana í nýju fötunum mínum. En þegar krakkarnir fóru i kirkjuna, þá fór ég bara heim. Það var erfið stund. En eitt ætla ég að segja að afi og amma gerðu mér mikinn dagamun í mat og drykk þennan dag. Ég fullyrði líka að ekkert fermingarbarnanna fékk eins flotta fermingargjöf og ég fékk. Ég fékk þýska Hohner harmonikku og að fullkomnustu gerð, það var stórkostlegt að veita henni viðtöku. Þessu gleymdi ég aldrei, ég hafði raunar ekki heldur verið skírður og var það líka af trúarlegum ástæðum. En ég fermdist nokkrum árum síðar þegar ég var 18 ára. Þá fór ég til séra Friðriks Rafnar eftir skóla einn daginn og hann bæði skírði mig of fermdi mig í Akureyrarkirkju að viðstöddum tveimur skólabræðrum mínu.
|