Viðtal við Magnús G. Jónsson Viðtalið tók Bjarni Már Hafsteinsson
Þegar ég var ungur Ég fæddist í Skotlandi í borginni Glasgow þann 7. janúar 1918. Móðir mín var frá Skotlandi og átti heima í Edinborg, hún hét Barbara en faðir minn var frá Sellátrum í Helgustaðahreppi, hann hét Guðni Jónsson. Hann starfaði sem sjóntækjafræðingur í Glasgow og móðir mín vann við verslunarstörf. Hér heima vann faðir minn sem smiður en hann var lærður húsasmiður. Á heimili mínu bjuggum við fjögur, foreldrar mínir, ég og Betty systir. Það var gaman að vera barn. Mér fannst skemmtilegast að veiða. Í Skotlandi lékum við okkur með marmarakúlur, hálfgerðar billjardkúlur, það átti að kasta í þær. Ég þurfti að vinna ýmis verk á heimilinu, mjólka beljurnar, smala, vinna við heyskap með orfi og ljá og raka. Einnig var ég látinn fara á sjóinn að veiða. Helstu leikirnir sem við fórum í voru pinnaleikur, útimannaleikur, statt og frí og húsabali. Helstu leikföngin voru veiðistöng, byssa og færi. Það var oft gaman á sjónum. Ég man einu sinni þegar ég datt í sjóinn inn við Högnastaði. Ég var einn á báti í olíugalla og buxum og var að vitja um net. Þá sé ég teistu og hugsa mér að elta hana uppi og ná henni lifandi. Ég reri hana uppi, fór fram í stefni, datt í sjóinn og hékk þarna á hnífnum á stefninu.
Barnaskólinn Ég bjó hjá prestinum, Séra Stefán hét hann. Ég gekk í Eskifjarðarskóla og voru kennarar þá Arnfinnur Jónsson, Einarína Guðmundsdóttir, Jón Valdimarsson og Baldur Þorsteinsson.
|