Viðtal við Kristínu Pétursdóttur

Viðtalið tók Pétur Steinn Guðmannsson

 

Hvenær komstu til Eskifjarðar ?

Ég kom hér til Eskifjarðar árið 1944 og tók við búskap á Sigurðarhúsinu og byrjaði sambúð með eiginmanni sínum, Þorvaldi Friðrikssyni.  Ég tók við heimilinu af tengdaforeldrum mínum sem voru þar ennþá ásamt börnum þeirra hjóna.  Tengda-pabbi minn var hreppstjóri og á veturna kom oft fjöldi manna niður á Sigurðarhús til að fá hjálp við skattaskýrslur og fleira.

 

Hvernig voru leikir krakkanna og vinna hér á Eskifirði ?

Strákarnir léku sér aðallega með bíla, járnbáta og trébáta sem þeir bjuggu til með feðrum sínum.  Krakkar léku sér einnig af kindahornum sem voru hafðar fyrir kindur.  Einnig var komið saman, rabbað, hlegið og sungið.  En það var ekki alltaf tími til að leika sér því vinnan tók við af leikjunum t.d. sendiferðir, sækja mat og drykk til heimilisins, því ekki voru bílar til að fara á.  Þá voru frekar notuð hjól sem sumir kölluðu sendlahjól.  Eftir að þau komu á markaðinn gátu menn fengið mat sendan heim úr búðum einu sinni í viku.

 

Hver var atvinna karla og kvenna í gamla daga ?

Atvinnan hjá körlunum á Sigurðarhúsinu var t.d. múrverk, beitning fyrir veiðitúra, vinna í lýsisbræðslunni, vinna í fiski og sjómennska.  Á meðan unnu konurnar við innanhússstörfin, eldamennsku, prjónaverk og sauma, þrifnað og barnauppeldi.  Á þessum tíma voru flest öll föt unnin heima af konunum s.s. peysur allar handprjónaðar á börn fram að fermingu, öll sokkaplögg prjónuð, einnig mikið af bolum og nærbuxum.  Skyrtur, utanyfirbuxur og úlpur voru saumaðar eins líka allir kjólar á stelpurnar.  Vettlingar og lambhúshettur voru einnig prjónaðar.

 

Skemmtanir á Eskifirði í gamla daga.

Það var farið næstum vikulega á dansleiki við harmonikkuundirleik.  Í þá daga spiluðu þeir mikið Þorvaldur Friðriksson, Hjalti Guðnason, Hermann á Sellátrum og seinna kom Óli Fossberg mikið við sögu.  Það var byrjað að marsera, svo var farið í myllu sem var hringdans þar sem voru valdar dömur og herrar ásamt þeim sem sátu hringinn í kringum dansgólfið og herrarnir buðu upp.  Ég stjórnaði oft dönsunum ásamt Munda Stefáns og  Kristjáni Tómassyni.  Í dansinum var eitt atriði sem kallaðist "nafnakall".  Þá fengu allir karlarnir einhver nöfn og kvenfólkið líka, síðan áttu þeir sem fengu sömu nöfn að dansa saman.  Það var mikið sungið og gleðin var mikil.

 

- Til baka -