Viðtal við Kristinn Hallgrímsson Viðtalið tók Jóhanna Guðnadóttir
Þegar ég var ungur Ég fæddist á Dalvík 22. febrúar árið 1922. Mamma mín og pabbi eru bæði Svarfdælingar. Pabbi var sjómaður og mamma var húsmóðir. Á heimilinu voru mamma, pabbi, ég og sjö önnur systkini og amma mín sem hét Sólveig. Húsið okkar var torfbær og var ekki stórt. Mér fannst gaman að vera barn á Dalvík en það var langt í skólann og ef ég ætlaði í sund þurfti ég að ganga í klukkutíma þangað. Það var skemmtilegt að vera úti með öðrum krökkum og mest gaman var að fara á skíði, skauta, slábolta, yfir og skessuleik þar sem einn var skessan og aðrir voru börnin. Ég þurfti ekki að vinna mörg verk en krakkar voru látnir beita línu, vinna við heyskap og við þurftum að mjólka kúna sem pabbi og mamma áttu. Helstu leikföngin sem ég og vinir mínir áttum voru bátar og skeljar. Stundum hoppuðum við á ísjökum yfir ár, okkur var sagt að það væri hættulegt en við hlustuðum ekki á foreldra okkar. Það eftirminnilegasta sem ég man var jarðskjálftinn á Dalvík í júní árið 1934. Ég man alveg hvar ég var þegar þetta gerðist og klukkan hvað. Ég var úti og sjórinn var spegilsléttur og bátur var við bryggjuna, hann gekk í hafróti eins og risastórar öldur. Mörg hús hrundu í jarðskjálftanum og þar á meðal heimili mitt. Þá var sofið í tjöldum í margar nætur.
Fermingin Ég fermdist í Ufsakirkju, presturinn hét séra Stefán Kristinsson og vorum við 19 alls sem fermdust. Við þurftum að læra eins marga sálma og við gátum. Ég lærði 20 sálma en sá sem lærði mest lærði 38 sálma. Það sem við þurftum helst að læra var faðirvorið, boðorðin 10 og trúarjátninguna og svo Kverið sem var eins konar biblía sem hafði að geyma faðirvorið, boðorðin og trúarjátninguna og fleira. Ég var fermdur á hvítasunnu árið 1936. Ég fékk einn fimm krónu seðil í fermingagjöf en það var ekki haldin nein fermingarveisla nema að heimilisfólkinu var boðið upp á súkkulaði í tilefni dagsins.
Barnaskólinn Ég gekk í barnaskóla í Dalvík. Ég byrjaði 10 ára í skóla. Fyrst gekk ég í skóla í sama húsi og ég fæddist. En ég var bara hálft ár í þeim skóla og byrjaði svo í nýjum skóla sem er enn notaður í dag að hálfu til. Það var mjög gaman og helstu námsgreinarnar voru lestur, skrift, kristinfræði, landafræði og Íslandssaga. Við þurftum að læra mörg kvæði og fara með þau fyrir kennarann. Í skólanum vorum við frá kl. 9 til klukkan 3 eftir hádegi annan hvern dag. Á haustin var sundskylda og þá þurfti að ganga 5 km fram í sveit frá Dalvík. Okkar skóli var sá fyrsti sem kom á skyldusundi og heitri laug á Íslandi. Ég man einu sinni eftir atviki sem gerðist í skólanum. Þegar ég var í 2. bekk fórum við niður í fjöru og þar var tankur sem var úti í sjó. Einhvern veginn komumst við upp á tankinn og þá fór að flæða að. Við duttum út í og urðum blautir upp að hnjám. Þegar við komum aftur í skólann þurfti að setja fötin okkar á ofn í skólanum. Þar þurftum við að vera berfættir þennan dag. Þar vorum við óheppnir.
|