Kartöflur, staurar og gaddavír. Löngum hafa gengið sögur um Eskfirðinga og útsæðiskartöflur og vildu rætnar tungur gefa sér það að á kreppuárunum hafi Eskfirðingar étið útsæðiskartöflurnar sem áttu að gróðursetja. Í gegnum árin hafa Eskfirðingar ekki tekið mikið mark á þessum þvættingi og gert góðlátlegt grín að þessu. Þá var ortur bragur sem átti að styrkja þessar óprúttnu sögusagnir af Eskfirðingum og kartöflum þeirra. En staðreynd málsins er sem hér segir: Þegar kreppan mikla sem var um og eftir 1930 fór að þjarma að heimilum alþýðunnar reyndu menn að leita allra ráða til að bjarga sér sem best. Og því var það að á fundi í Verkamannafélaginu Árvaki 18. september 1931 að kosin var þriggja manna nefnd til að vinna með þremur mönnum úr hreppsnefndinni til að reyna að verða sér úti um þann styrk sem alþingi veitti á síðasta þingi til atvinnubóta. Þetta leiddi til þess, að hreppsnefndinni tókst hinn 5. maí 1932 að kría út úr ríkissjóði 5 þúsund króna lán til kaupa á útsæðiskartöflum, girðingarefni og áburði. Var þegar ráðist í að brjóta stórt garðland á melunum inn og upp af húsi Þorsteins Snorrasonar (Melur) og almenningi gefinn kostur á að rækta þar kartöflur. Fyrir afnotarétt af landinu greiddu menn 1/16 uppskerunnar, og þar að auki fengu þeir hreppnum í hendur að hausti nægilega mikið til útsæðis á næsta vori. Var komið upp geymslu fyrir útsæðið skammt frá Melbæ. Þetta gaf ágæta raun. Þarna risu á nöktum melum stærstu samfelldu kartöflugarðar sem sést hafa á Austfjörðum og var að þeim bæjarprýði auk nytseminnar. Garðlönd þessi voru notuð í mörg ár. Þessi sjálfsbjargarviðleitni fólksins var afflutt í pólitísku skyni á ódrengilegasta hátt. Þeirri lygasögu var komið á loft og hefur verið á kreiki fram til dagsins í dag að ríkið hafi gefið Eskfirðingum útsæðið og girðingarstaura, en ómennska þeirra verið slík að þeir hefðu étið útsæðið og notað staurana í eldinn. Það fylgir ekki sögunni, hvað orðið hefði um áburð og gaddavír; hefðu kannski ekki þótt nógu sannfærandi að segja að þeir hefðu étið hvort tveggja í eftirrétt. Allt var þetta uppspuni frá rótum. Ríkið gaf Eskfirðingum ekki neitt, en veitti hreppsfélaginu þar framkvæmdasmálán, sem greitt var að fullu eins og eftirfarandi kvittun segir til um:
Fjármálaráðuneytið Reykjavík 25. apríl 1945. Hér með er yður sent kvittun að skuldabréf útg. 5. maí 1932 fyrir kr. 5.000.00 láni, sem hreppurinn fékk á sínum tíma úr ríkissjóði til kaupa á útsæðiskartöflum, girðingarefni og áburði. F.h.r. Magnús Gíslason ( sign) Áb. Einar Bjarnason(sign) Til oddvitans í Eskifjarðarhreppi. (Eskja 4, bls. 148) Hérna kemur svo önnur saga um kartöflugarðana og útsæði frá kreppuárunum á Eskifirði. Árni Helgason í Stykkishólmi segir svo frá í endurminningum sínum. Kreppuárin milli 1930 – 1940. Kreppan hélt áfram og enn varð að finna úrræði. Eysteinn Jónsson var þá orðinn fjármálaráðherra og kom til Eskifjarðar og hreppsnefndin mætti honum á fundi. Var þar margt rætt og um Eskifjörð gekk sú saga að Eysteinn hefði nefnt sem úrræði að flytja Eskfirðinga út í Vattarnes svo þeir væru nærri fiskimiðunum, en hvort þetta hefði verið í bígerð, kom þó aldrei til þess. Hins vegar varð það úr að ákveðið var að grípa til nýrra atvinnubóta og menn sendir á fund stjórnvalda og varð tíðrætt um þetta og notaði Spegillinn sér þetta og kom fræg mynd sem varð og sýndi bogna menn í göngu og fyrir ofan stóð; Hungurganga Eskfirðinga. Á Eskifirði var þá oddviti Gunnar Grímsson frá Húsavík í Hrútafirði. Hann var framsóknarmaður og honum beitt við stjórnina. Loks kom úrræði sem var að nota atvinnubótafé sem stjórnin lét þeim í té og bylta góðum melum innst í kauptúninu í kartöflugarða og var þegar hafist handa. Mönnum var úthlutað atvinnubótum allt frá 30 kr. og upp 60 kr. og látnir vinna þetta verk með skóflu og haka og eins að girða allt svæðið á kostnað atvinnubótapeninganna, en svo var garðinum skipt í beð og hver fékk sinn skika. Ríkisstjórnin ætlaði svo að sjá um að útvega útsæðið og koma því austur. Ég held að það hafi átt að vera frá Hollandi. En það bara dróst að fá útsæðið og leiddist mörgum biðin og þegar júní byrjaði voru margir búnir að leita fanga annarsstaðar bæði í nágrenni og upp á Héraði, m.a. vorum við á Hlíðarenda undir forystu Frissa gamla og Dóra búnir að brjóta land í nágrenni okkar á góðum stað til að setja niður. Fengum við góða uppskeru um haustið. En loks komu kartöflurnar, þær voru stórar svo hægt var að skipta þeim í fjóra hluti til þess að koma þeim niður, en vegna þess að margir voru þegar búnir að koma sínum kartöflugörðum í sáningu, þurftu þeir ekki á þeim að halda. Mikið magn gekk því af og til að þetta færi ekki til spillis, voru kartöflurnar seldar kaupmönnum og kaupfélögum á Austurlandi sem seldu þær um sumarið og var lán að þær þoldu geymslu og komust allar til nota. Þá fann einhver upp á því að segja frá því að í blöðum að Eskfirðingar hefðu étið útsæðið og varð þessi saga svo lífseig að ég er enn að heyra hana eftir hálfa öld. Svo var Arnfinni Jónssyni og kommunum kennt um, en það er ekki staðreynd. Kartöflubragur sem hér fer á eftir er eignaður Fáskrúðsfirðingnum Kristni Kristinssyni eða Lilla popp eins og hann var oft kallaður og varð textinn til einhvern tíma á sjöunda áratugnum. Hefur þessi bragur verið ansi lífseigur og oft kyrjaður manna á milli, á góðum stundum s.s. á dansleikjum og á stærri skemmtunum svo sem Þorrablótum. Allt er þetta til gamans gert og hafa menn gaman af. Lagið sem textinn er við er grípandi og auðlært og er eftir rokkarann góðkunna Chuck Berry og heitir lagið á amerískunni My dingaling en textinn er svona:
Eitt sinn kom ég á Eskifjörð og mætti mér þá manna hjörð sem allir á leið voru upp í gerð er fyrir var komið vel í hvarf.
Viðlag. Kartöflur og gaddavír kartöflur staurar og gaddavír Kartöflur og gaddavír kartöflur staurar og gaddavír.
Kú kom þar og hló að þeim því henni fannst þetta skrítið geim átta pokar af útsæði fannst henni algjört brjálæði
Viðlag
Eskfirðingar störðu kúna á og fannst sem hún send væri himnum frá þeir áttu ekkert flottara fæði og átu þess vegna útsæði.
Viðlag
Er þeir komu heim það kveld allir í hlóðum þeir kveiktu eld og þarna brenndu þeir staurana á rassgatið notuðu vírana.
Viðlag Samantekt: Þórhallur Þorvaldsson
|