Viðtal við Ingibjörgu Þuríði Stefánsdóttur

Viðtalið tók Kamma Dögg Gísladóttir

 

Þegar ég var ung

Ég er ættuð og uppalin á Ímastöðum í Vöðlavík.  Ég er fædd 6. júní árið 1938.  Pabbi minn hét Stefán og var ættaður af Meðallandi en móðir mín hét Guðrún Jónína og var ættuð úr Vöðlavík.  Þau voru bæði mikið bændafólk og áttu þau t.d. fyrstu sláttu-vélina í Vöðlavíkinni.  Á heimilinu voru sex manns en oftast komu svo þrír krakkar í sveit yfir sumarið, bæði úr Reykjavík og hérna úr firðinum.  Húsið okkar var ekki stórt miðað við allan fjöldann sem var stundum í því.  Mér fannst yndislegt að vera barn í þessari sveit þótt ég þyrfti að vinna erfiðisverk á heimilinu.  Ég þurfti að hjálpa til við að sjá um skepnurnar og hjálpa móður minni að sjá um heimilið t.d. þvo þvott-inn og fleira og stundum var erfitt að vera í heyskapnum. Ég fór oft með systkinum mínum og krökkunum á hinum bæjunum í leiki.  Leikirnir voru slagbolti, gullabú, húsabali o.fl.  Leikföngin sem ég átti voru horn og leggir.  Ég átti ekki dúkku fyrr en ég var 9 eða 10 ára en ég hafði fengið dúkkuhaus úr gleri þegar ég var 7 ára. Ég man eftir því þegar ég var 8 ára þá stalst ég út einn dag en þá var heljarins rok, ég ætlaði upp í sláturkofann.  Þegar ég var komin rétt fyrir ofan hús þá tókst ég á loft og fauk nokkuð langt en náði að grípa í vegg og komst þaðan aftur inn, organdi af hræðslu.

 

Fermingin

Ég fermdist 4. maí, árið 1952.  Presturinn sem fermdi mig hét Þorgeir Jónsson í Eskifjarðarkirkju.  Krakkarnir sem fermdust voru fimmtán talsins, tíu stelpur og fimm strákar.  Við þurftum að læra 5 - 6 sálma utanbókar.  Undirbúningurinn var nokkuð mikill, við gengum til spurninga í hálfan mánuð hjá prestinum.  Ég var fermd kl. tvö og var veisla haldin heima hjá mér viku þar í frá og voru veislugestir um þrjátíu.  Eftir athöfnina fór ég til systur minnar sem átti heima á Mjóeyrinni.  Systir mín hélt þar veislu fyrir fjölskylduna því hún hafði skírt dóttur sína um leið.  Þaðan fórum við út á Útstekk og sváfum þar eina nótt. Daginn eftir löbbuðum við út í Vöðlavík því það var svo mikill snjór og ófærð.

 

Barnaskólinn

Skólinn sem ég gekk í var farskóli og var kennt á mánaðarfresti innan og utan heiða.  Föðurbróðir minn hann Vilhjálmur kenndi mér svolítið í reikningi.  Eftirminnilegustu kennararnir eru þeir Guðgeir Guðjónsson frá Skuggahlíð og Þorvaldur Guðjónsson frá Litlu - Breiðuvík.  Mér fannst skólinn góður og mér var kenndur lestur, skrift, reikningur, biblíusögur, stafsetning, landafræði, náttúrufræði, Íslandssaga, skólaljóð og teikning.  Okkur var kennt frá kl. 9 á morgnana til kl. 4 á daginn, sex mánuði á ári.  Eftirminnilegasti atburðurinn í skólanum var þegar einn strákur lærði ekki lexíurnar sínar og var rekinn út úr tíma.  Þá bað hann móður mína, sem vissi þetta ekki, að leyfa sér að fara í fótabað og það fékk hann.  Þegar hann var búinn í fótabaðinu fór hann út í fjós og settist klofvega á nautið og sat þar.

 

- Til baka -