Viðtal við Huldu Björk Rósmundsdóttur

Viðtalið tók Katrín Jóhannsdóttir

 

Ég er fædd 26. janúar 1935 á Eskifirði.   Húsið sem ég fæddist í heitir Sjóborg og bjuggu þrjár fjölskyldur í því.  Foreldrar mínir hétu Þórunn Sigurlaug Karlsdóttir og Einar Rósmundur Kristjánsson og bæði voru þau fædd á Fáskrúðsfirði.

Helstu leikir barna voru slábolti og fallin spýta og boltaleikir alls konar.  Mest gaman var að vera úti að leika sér. Ég átti dúkkurúm  sem pabbi smíðaði og tuskudúkku sem mér þótti mjög vænt um. Það þýddi ekkert að vera að biðja um fleiri leikföng því það voru ekki til peningar til að kaupa annað en mat.  Líf barns, þegar ég var lítil var venjulegt nema við vorum mörg systkinin og lékum okkur saman, þá var ekki tölva til að pikka á, ekki sjónvarp og ekki útvarp fyrr en 1940.

Matur var þessi hefðbundni, slátur og fiskur, það var ekkert um pizzur, hamborgara og ekki kjúklingar.

Ég fermdist 1949, í Eskifjarðarkirkju (gömlu).  Prestur var séra Þorgeir Jónsson. Ég lærði sálma og boðorðin. Í veislunni var kaffi og kökur. Ég fermdist í síðum kjól, það voru ekki kirtlar þá. Ég fékk fermingarfötin að gjöf.

Jólin voru svipuð og núna nema ekki mikið um gjafir og tilstand. Mamma bakaði alltaf mikið af kökum.  Börn trúðu á jólasveinana þá eins og núna.  Stúfur var alltaf á bak við sláturtunnuna í kjallaranum hjá okkur.

Það var alltaf borðað hangikjöt á jólunum!

 

- Til baka -