Viðtal við Hrefnu Björgvinsdóttur

Viðtalið tóku Jóhanna Rut Stefánsdóttir og Kristín Rún Friðriksdóttir

 

Þegar ég var ung

Ég er fædd í Borgarfirði eystra 23. júlí 1918.  Foreldrar mínir komu frá Borgarfirði eystra og var pabbi skipstjóri en mamma var saumakona og húsmóðir.  Við vorum sjö á heimilinu og flutti ég sex ára hingað til Eskifjarðar. Mér fannst ágætt að vera barn og skemmtilegast þótti mér þegar við höfðum tíma til að leika okkur.  Ég þurfti að vinna ýmsa vinnu á heimilinu t.d. að vaska upp, passa systkini mín og fara í sendi-ferðir fyrir mömmu.  Við krakkarnir lékum okkur oft í slábolta, yfir, húsabala, felingaleik, skessuleik og norskum og dönskum boltaleik.  Ég átti eina dúkku með glerhaus, leggi og gullabúdót.  Ég man að eitt sinn fór ég með bróður minn í göngutúr í Borgarmýrum og við komum svo seint heim að við vorum lokuð úti og pabbi neitaði að opna en gerði það þó á endanum.

  

Fermingin

Ég fermdist í þjóðkirkjunni á Eskifirði og presturinn hét Stefán Björnsson.  Ferminga-börnin voru alls tuttugu og fimm talsins.  Séra Stefán lét okkur læra Kverið og spurði okkur síðan út úr því.  Ég þurfti að læra sálma og undirbúningurinn var mikill.  Fermingadagurinn var 15. maí 1932, það var gott veður þegar við fórum í kirkju en þegar við komum heim var komið slagveður.  Í fermingagjöf fékk ég veski og fimm krónur í peningum og kettling.  Það var engin veisla haldin í tilefni dagsins.

  

Barnaskólinn

Ég gekk í Barnaskóla Eskifjarðar og kennarar mínir voru Arnfinnur Jónsson, Jón Valdimarsson, Einarína Guðmundsdóttir, Ragnar Þorsteinsson og Einar Loftsson.  Það var bæði gott og gaman í skólanum.  Þar voru helstu greinarnar íslenska, stafsetning, reikningur, skrift, saga, náttúrufræði, landafræði, eðlisfræði og kristinfræði.  Við vorum misjafnlega lengi í skólanum á hverjum degi en þó oftast frá 9 á morgnana til kl. 12 á hádegi og aftur frá klukkan eitt til þrjú eftir hádegi.  Skólinn var frá 1. október til 15. maí.  Ég man eitt sinn að kennarinn skammaði mig fyrir það að gera lítið í tímanum.  Ástæðan fyrir því var sú að ég var svo önnum kafin við að telja lýsnar í hárinu á stelpunni sem sat fyrir framan mig.

 

- Til baka -