Viðtal við Halldór Friðriksson  

Viðtalið tók Þorvaldur Örn Davíðsson

 

Ég fæddist árið 1918, þann 5. nóvember á Eskifirði.  Húsið sem ég átti heima í var kallað Bræðraborg og var frekar nýtt á þeim tíma. Bræðurnir Friðrik Árnason og Björn Árnason byggðu það hús og það stendur ennþá og er í daglegu tali kallað Brú.  Móðir mín var úr Húnavatnssýslu, fæddist á Kárastöðum en faðir minn var frá Högnastöðum í Helgustaðahreppi.

Mín fyrsta minning var þegar mér var sagt að þessi vetur frá 5. nóvember og fram yfir áramót væri kallaður: ,,frostaveturinn mikli” því það lagði allan fjörðinn af ís og af svo miklum ís að skipin gátu ekki komist að kaupstaðnum þannig að þau þurftu að leggja allar vörurnar á Hólmanesið og vörurnar voru síðan bornar þaðan.

Þeir leikir sem voru vinsælastir í þá daga var að slá úr rúðunum og í þeim leik voru settir múrsteinar og pinnar ofan á þeim og þeir slegnir af.Annar vinsæll leikur var slagbolti ,,kíló”,og einn annar hét ,,yfir” og svona gekk þetta en enginn var farinn að hugsa út í fótboltann.

Maturinn var að vissu leyti frábrugðinn matnum í dag. Það var t.d. ekkert sem hét hamborgari en gott þótti að fá rúsínugraut en pabbi gerði mikið af því að skjóta svartfugl og veiða fisk.

Þegar ég var sex sjö ára fannst mér vera gaman að hjálpa mömmu við að hreinsa trégólf í eldhúsinu og í svefnherberginu. Þau verk sem við þurftum að vinna voru bara sjálfsögð en það voru kolavélar á þeim tíma, ekki rafmagnsvélar svo við þurftum að safna eldiviði í þessar vélar svo hægt væri að kynda og elda því þegar það var verið að baka var mjög gott að hafa þurrar og góðar spýtur.

Það sem ég lék mér mest við þegar ég var lítill og með strákunum voru horn og leggir og við bjuggum til réttir og lékum eins og við værum bændur. En þegar ég var sjö, átta ára voru svona járnbátar sem allir strákarnir létu smíða fyrir sig og við settum steina í þá og þóttumst bera vörur í þessu og drógum þetta með fjörunni og það var mög gaman.

Tveir af þeim kennurum sem ég man eftir hétu Arnfinnur Jónsson, sem seinna varð skólastjóri í Austurbæjarskólanum í Reykjavík og hinn hét Jón Valdimarsson.

Það skemmtilegasta sem ég man eftir í skólalífinu var þegar vinur minn fann það ráð  að sleppa við tíma. Þá tók hann á það ráð að fara þar sem kolakyndingin var geymd og  að heitu öskunni sem var mjög nálægt  hitanum og pissaði í öskuna og við það kom svo hrikaleg lykt að það þurfti að aflýsa skólanum.

Daglegt líf á þessum dögum var bara aðallega heima fyrir.  Ég var tólf ára gamall þegar ég byrjaði að vinna á fiskireitum og ég fékk tuttugu og fimm aura á tímann og það lét ég mömmu bara fá.

Þegar ég var lítill var enginn að hugsa hvað þeir vildu vera þegar þeir yrðu stórir, þá var bara ein vinna sem var sjórinn, þá fór ég í útgerð á bát hjá Sigurði Magnússyni og það var í fyrsta og eina skipti sem ég fór utan og við fórum til Skotlands að selja fiskinn.

Ég fermdist á hvítasunnu og presturinn hét Stefán Björnsson. Það sem ég þurfti að læra fyrir fermingu var trúarjátningin og helstu kaflar úr Helgakverinu. Ég fermdist í dökkum vaðmálsfötum. Þær gjafir sem ég fékk voru sokkar og þannig og ég fékk frá gamalli frænku minni sem hét Gróa Bjarnardóttir tvær krónur sem var mikill peningur í þá daga.

Jólin í þessa daga voru mjög hátíðleg. Það var þannig að föðurbróðir okkar Björn Árnason smíðaði tré og setti á það kerti sem voru lifandi og við komum saman í stofunni hjá okkur og þar var sungið og dansað. En það voru engir sérstakir siðir nema að þetta var álitin hátíðleg stund og það var lagt strangt bann við það að snerta spil fyrr en seinna á jóladag en það mátti ekki spila á jólunum. Ekki var mikill undirbúningur fyrir jólin en mamma bakaði eitthvað af betra brauði.

Eins og ég sagði var gaman að fá þessar tvær krónur í gjöf og það var gaman að fá fallega sokka. En svo fékk ég fallega sauðskinnskó sem mamma hefði litað svarta og þetta voru lengi spariskórnir mínir.

Börn trúðu á jólasveinanna meira en núna því á þessum tíma er bara verið að gera grín af þeim. En á þessum tíma komu þeir frá fjöllunum  en ekki eins og núna að þeir komi með gjafir. Það var sagt um útlitið að þeir væru með skegg og hálf luralegir og hvað þá heldur Grýla, hún var nú miklu luralegri. Sá jólamatur sem var oftast var lambakjöt og oftast eða alltaf var rúsínugrautur.

Eitt eftirminnilegasta atvik sem ég man eftir var þegar við strákarnir vorum niðri í fjöru að velta steinum út í sjóinn til að búa til bryggju fyrir járnbátana okkar. Þá vildi svo illa til að við tókum stóra steina og einn lenti ofan á litla fingurinn á mér og hann varð alveg að klessu og það þurfti að taka hann af en fyrst þurfti að taka kirtla úr úlnliðinum vegna blóðeitrunar en síðan hef ég bara haft fjóra fingur á annarri hendi.

Þegar ég var orðinn fullorðinn þá lenti ég í aftaka veðri og það fórst bátur skammt frá okkur og það munaði litlu að við færum niður með honum.

Þegar ég hugsa um herinn þá kom hann 1940 og það var búið að rigna þessi lifandis ósköp í þrjá, fjóra daga og allt í einu heyrir maður það að eins og Hólma-tindurinn sé að hrynja allur, það eru svo mikil læti og við fórum að horfa yfir á ströndina þá eru það ekki skriður heldur skriðdrekar og fleiri skriðdrekar sem koma í áttina að okkur.  Við urðum alveg agndofa yfir þessu og allir héldu að það væri verið að gera árás á okkur en þegar þeir eiga stutt eftir að Eskifjarðarbrúnni þá fer brúin með öllu saman og þeir komu aldrei til okkar, hvorki skriðdrekar eða annað en við fengum setulið sem kallað var og það voru fimm hermenn sem ílengdust hjá okkur en skriðdrekarnir fóru og þeir komust aldrei aftur til okkar.

- Til baka -