Viðtal við Friðriku Björnsdóttur  

Viðtalið tóku Harpa Mjöll Fossberg Haraldsdóttir og Ásbjörn Eðvaldsson

 

Ég fæddist þann 19. september 1941, í Sunnuhvoli sem er hús neðan við gömlu kirkjuna. Faðir minn hét Björn Kristjánsson og mamma mín var Borghildur Einarsdóttir, hún lést þegar ég var aðeins sjö mánaða . Ég ólst upp hjá föðurömmu minni og föðurafa, þeim Kristjáni og Lukku.  Hjá þeim var ég held ég ofdekruð þar sem ég ólst þar upp ein. Ég átti þrjú hálfsystkini.

Ég vildi helst alltaf liggja inni og lesa, ég var rosalegur bókaormur og var rekin út til að leika mér. Það var mikið um það að við krakkarnir fórum í leikinn ,,Yfir“  hjá gömlu kirkjunni , þá vorum við með bolta sitthvoru megin. Við vorum  líka í slábolta í kringum kirkjuna, þar sem var enginn garður. Fyrir utan hjá bankanum og félagsheimilinu  var stórt tún, þar vorum bæði á skautum á veturna á svellinu sem kom  og á sumrin vorum við þar í skessuleik og mörgum öðrum leikjum. Þá voru engir krakkar í tölvum eins og í dag.

Mér fannst alltaf gaman á jólunum. Ég man sérstaklega eftir því að það kom alltaf saman öll fjölskyldan hjá ömmu og afa og það var farið í leiki og spilað og borðaður góður matur, það var mjög gaman. Ég man vel eftir að ég fékk dúkku og dúkkurúm sem ég hélt mjög mikið upp á en svo fannst mér best að fá bækur. 

Ég var í skólanum hérna á Eskifirði sem var þá þar sem félagsmiðstöðin var seinna.  Gamli skólinn er hann kallaður. Eftir það fór ég í gagnfræðiskóla á Eiðum og var þar þrjá vetur.  

Ég fermdist 29. maí 1955. Ég man reyndar lítið eftir fermingunni, mér fannst fermingin ekkert sérstök . Við vorum 25 krakkar sem fermdust, það var stærsti hópur sem hafði verið þá. Við vorum látin ganga til altaris á þriðjudeginum á eftir, að kvöldi til, mér fannst það draugalegt  því það var svo dimmt í kirkjunni. Ég man eftir að mér fannst þetta bara ekkert spennandi, enda er ég ekkert mjög hrifin af altarisgöngu.

Fyrsta vinnan mín var að passa börn enda var ekkert mikið í boði fyrir krakka þá. Síðar fór ég að vinna í Pöntunarfélaginu á sumrin sem var þá í gula húsinu á Strandgötunni. Á þeim tíma vann ég í Pöntunarfélaginu hálfan daginn og í bókabúðinni hálfan daginn .

Það er ekki hægt að líkja unglingum í dag og unglingum áður fyrr saman. Í dag er allt öðruvísi, krakkar í dag fara ekki í svona útileiki eða neitt, ekki slábolta né yfir eða svoleiðis leiki . Krakkarnir í dag eru bara í tölvum eða einhverjum þvílíkum leikjum . Það hefur mikið breyst.

Verst við bæinn finnst mér að búið að taka bankann frá okkur og að við erum orðinn hálfgerður svefnbær, mjög lítið að gera hérna . Ég er náttúrulega voða glöð yfir Eskifirði, mér þykir vænt um bæinn okkar. Mér þykir vænt um Eskifjörð því ég á minn uppruna hér og fjölskyldu . Þetta er góður bær að mörgu leyti en hefur sína galla og kosti eins og allir aðrir staðir . Mér finnst slæmt að það er búið að taka svona margt frá Eskifirði en samt er kannski að sumu leyti gott hvað það er rólegt hérna, mjög barnvænt og mikið frelsi fyrir krakka. Maður getur treyst börnunum betur, mér finnst reyndar að maður eiga að geta treyst krökkum.

Þegar ég var lítil vann pabbi minn sem kokkur á sjó. Í gamla daga voru ekki miklar samgöngur hjá krökkum eins og í dag. Þá þótti langt að fara út á Hlíðarenda . Við krakkarnir hittumst bara í skólanum. Áður en ég hætti að vinna var ég að ræsta bankann og vinna í frystihúsinu. Í dag bý ég á Fossgötu 6, með manninum mínum Þorvaldi Einarssyni og saman eigum við Einar Guðmund, Björgvin , Kristínu Lukku og Borghildi.

 

- Til baka -