Viðtal við Braga Þórhallsson  

Viðtalið tók Iðunn Bragadóttir

 

Þegar ég var ungur

Ég fæddist í Langhúsum í Fljótsdal árið 1947.  Foreldrar mínir voru úr Fljótsdalnum og störfuðu við landbúnað.  Einn bróðir minn bjó hjá ömmu minni og vorum við tíu í heimili.  Það voru þrjú herbergi í húsinu og eldhús.  Það var ágætt að vera þarna.  Mér fannst skemmtilegast að vera á hestbaki en við unnum einnig við heyskap, að smala fé, gefa beljunum og moka undan þeim.  Leikir krakkanna voru að hlaupa í skarðið og fela tölu.  Leikföngin okkar voru bílar, traktorar, kjálkar úr sviðahausum, leggir og lítið hús og hlaða.  Það sem mér finnst eftirminnilegast er þegar að hestur sem ég var á fór á fullri ferð út í á og datt og ég datt af honum og missti takið á honum og þurfti að vaða í land.

 

Fermingin

Ég fermdist í Valþjófsstaðakirkju og presturinn hét Rögnvaldur Finnbogason.  Við vorum sjö sem fermdust.  Við lærðum kverið á prestssetrinu en undirbúningurinn var nú ekki mjög mikill.  Fermingadagurinn var skemmtilegur.  Ég fékk peninga, úr, bindisnælu og hnappa.  Það var haldin veisla fyrir öll börnin í félagsheimilinu og hún var skemmtileg.

 

Barnaskólinn

Ég gekk fyrst í skóla á prestssetrinu.  Fyrsti kennarinn hét Ólafur Hallgrímsson en svo kom annar kennari sem hét Jón M. Kerúlf.  Það var gaman í skólanum.  Okkur voru kennd flest þau fög sem kennd eru í dag nema tölvuvinna og heimilisfræði.  Í staðinn fyrir leikfimi kenndum við okkur sjálfum að dans.  Þá var annaðhvort spilað á orgel undir dansinum eða spiluð plata á grammafóninn sem var í félagsheimilinu.  Kennslan fór fram frá kl. 8 og stundum var okkur kennt alveg til fimm.  Kennslan hófst í nóvember og hætt var að kenna í apríl.  Ég var á bæ sem hét Litla - Grund og eitt sinn þegar við vorum á leiðinni heim í helgarfrí kom fyrir eftirminnilegt atvik.  Kennarinn keyrði okkur heim en þegar við áttum stutt eftir að Skriðuklaustri lentum við í svellbólstri og bíllinn rann af stað út á hlið og stefndi út af veginum.  Það sem bjargaði okkur var steinn í vegkantinum en afturhjólið stoppaði á steininum.  Við vorum látin labba heim að Skriðuklaustri og þurftum að bíða í 2 -3 klukkutíma þangað til bílnum var aftur komið upp á veginn.

 

- Til baka -