Viðtal við Atla Viðar Jóhannesson

Viðtalið tók Atli Dagur Pétursson

 

Atli D: Segðu mér aðeins frá þér

Atli V: Ja, maður var nú ekki nema 15 ára gamall þegar maður ákvað það að gerast sjómaður. Og ég er nú einbirni og móðir mín var nú ekki alveg samþykk því að ég færi á sjóinn og hótaði mér að hún myndi ekki taka mig til og ég sagðist bara taka mig til sjálfur og fór á sjó.

Atli D: Og hvernig var á sjónum?

Atli V: Ja, ég var svo sjóveikur að mér var hent í land eftir túrinn og það hlakkaði nú í þeirri gömlu. Sumarið eftir þegar ég var 16 ára þá fór ég og ég var á Svalbaki 10 ár eftir það.

Atli D: Já og var mamma þín alveg ánægð með það ?

Atli V: Já, hún var ánægð með mig að 21 árs aldri en þá bragðaði ég vín í fyrsta skipti, það féll nú ekki í góðan jarðveg og það var tekið hraustlega á því eins og á öðrum mínum málum.

Atli D: Hvar bjóstu þegar þetta var?
Atli V: Ég bjó nú heima hjá móður minni fram að 26 ára aldri og þá kynntist ég konunni minni og við erum nú búin að vera gift í 40 ár nú í sumar.

Atli D: Já hérna í æsku hvernig voru þá leikirnir hjá þér ?
Atli V: Ja, það er nú eins og ég sagði þér áðan að það var tekið með trompi, ég æfði sund.
  Ég byrjaði hvern einasta dag að fara í sund áður en ég fór í skólann á morgnana alla sjö daga vikunnar. Tvisvar sinnum var skólasund. Ég synti svo aftur á kvöldin eða alls 16 sinnum í viku. Og þegar upp var staðið þá átti ég 17 Akureyrarmet í sundi.

Atli D: Já, það er mjög mikið en eru einhver sérstök mót sem þú manst eftir?

Atli V: Já mér er minnistætt að ég tók þátt í 200 metra bringusundi karla, þá var ég 17 ára gamall og Sólon Sigurðsson sem síðar varð bankastjóri hann tók þátt í þessu sundi og Guðmundur Gíslason sem varð landsfrægur sundmaður. Ég vann Sólon og þar að leiðandi lenti ég í 3. sæti sem að þótti nú góður árangur. Ég varð fyrsti Akureyringurinn til þess að lenda á verðlaunapalli í sundi.

Atli D: Já það er nú góður árangur. En hvað varð til þess að þú fluttir hingað til Eskifjarðar?

Atli V: Þannig var mál með vexti að það vantaði menn sem kunnu til verka á togurunum þegar Hólmatindur kom hérna og það voru góðar tekjur og menn sem að kunnu eitthvað í netið, þeir voru eftirsóttir og ég lét til neyðast og fór hérna austur og ætlaði mér að vera hérna í 3 mánuði en ég er búinn að vera hér síðan 1971.

Atli D: Þannig að þessir 3mánuðir lengdust nokkuð mikið?

Atli V: Já svona í annan endann.

Atli D: Var auðvelt að fá vinnu hér?

Atli V: Já í þessa daga sem að við vorum hérna og stelpurnar komust nú á legg, ég á nú fjórar stelpur. Þá fengu þær allar vinnu hérna í frystihúsinu eða rækjuvinnslunni sem að er nú ekki fyrir hendi í dag. Ég var náttúrulega bara á togurunum og Benna var í frystihúsinu og saltaði síld hérna á haustin svo þá var nóg að gera þó að þetta sé nú orðið svefnbær nú í dag.

Atli D: Ég þakka þér fyrir þetta viðtal.

 

- Til baka -