Viðtal við Ásbjörn Guðjónsson Viðtalið tók Andrés Þorsteinsson Ég fæddist í Vestmannaeyjum árið 1949. Ég ólst upp Í Dalabúinu í Vestmannaeyjum þar sem voru 50 mjólkandi kýr. Foreldrar mínir eru Guðjón Jónsson fæddur á Borgarfirði syðri og Helga Þuríður Árnadóttir fædd á Norðfirði en alin upp í Vestmannaeyjum frá eins árs aldri. Þegar ég var ungur var vinsælast að leika sér með leggi, í ræningjaleik, í slábolta og fleiri leikjum. Auk þess að vera í ýmsum leikjum með vinum mínum þá vorum við að leika okkur að klifra í fjöllum og spranga. Ég man vel eftir því þegar við vorum í söngtíma hjá Oddgeiri Kristjánssyni, þá var oft gaman. Hann var metnaðarfullur maður og vildi að við gerðum rétt það sem hann lagði fyrir okkur. Eitt sinn vorum við að spila á bjöllubumbur, þríhorn og hann spilaði á píanóið, í miðju lagi sló einhver falstón og fauk þá verulega í Oddgeir og hann skammaði okkur. Ég ætlaði að verða bóndi þegar ég yrði stór en það breyttist á lífsleiðinni. Ég fermdist þann 21. maí 1963 í Landakirkju í Vestmannaeyjum og prestarnir hétu Jóhann Hlíðar og Þorsteinn Lúther Jónsson. Við vorum rúmlega 100 fermingarsystkinin. Það var haldin veisla sem tókst alveg frábærlega. Ég fermdist í jakkafötum, hvítri skyrtu með bindi. Ég fékk armbandsúr, myndavél, peninga og fleira í fermingargjöf. Jólin voru mjög hátíðleg í gamla daga. Það var alltaf hlustað þegar jólin voru hringd inn í útvarpinu, einnig var hlustað á söng og messu. Á jólanótt var eitt ljós látið loga og þeim sið hef ég alltaf haldið líka. Aldrei mátti taka í spil á aðfangadagskvöld og jóladag. Mér þótti nauðsynlegt að fá bækur og leikföng í jólagjöf. Börnin trúðu á jólasveinana alveg eins og í dag. Það var borðaður þessi hefðbundni matur á þessum tíma, lambakjöt, hangikjöt og meðlæti, einnig fengum við epli og appelsínur en í þá daga var ekki mikið um ávexti á þessum tíma. Ég man eftir því þegar ég var lítill strákur og við vorum sjö systkinin og ég hafði rifið upp marga jólapakka og ég spurði mömmu hvort ég ætti ekki fleiri, þá hló hún bara. Þegar ég var fimm ára þá fóru elsti bróðir minn og vinur hans að kenna mér að hjóla. Það var farið með mig upp í bratta brekku, þar settu þeir mig upp á hjólið og ýttu mér af stað og sögðu : hjólaðu nú drengur. Ég skjögraði á hjólinu niður brekkuna og náði loks jafnvæginu og hef getað hjólað síðan. En bróðir minn og vinur hans fengu ekki hjólið aftur fyrr en nokkrum tímum seinna og þeir voru ekki ánægðir með það.
|