Viðtal við Arnheiði Dröfn Klausen  

Viðtalið tók Jóhanna Klausen

 

Þegar ég var ung

Ég fæddist hér á Eskifirði 5. mars árið 1929.  Móðir mín fæddist í Skagafirði en bjó áður en hún flutti hingað á Ólafsfirði.  Hún var heimavinnandi.  Faðir minn fæddist hér, bjó hér á Eskifirði alla tíð og vann við fisk- og síldveiðar.  Við vorum þrettán í heimili, ég og sjö systkini mín, mamma og pabbi, föðursystir mín, og um tíma föðuramma og afi.   Í húsinu okkar var eldhús, þrjú meðalstór herbergi og tvö stór, kjallari og geymsla.  Mér leið vel sem barni. Ég bjó við mikla ást og umhyggju.  Mér fannst skemmtilegast í boltaleik og á skautum og á skíðum.  Verkin sem ég þurfti að vinna voru m.a. að reka og sækja beljurnar.  Síðar passaði ég börn og var ráðin í vist.  Helstu leikirnir sem við krakkarnir fórum í voru slábolti, húsabali sem kallað var, það var sippað, gengið á stultum og farið í aðra boltaleiki.  Við vorum mikið í bolta-leikjum.  Leikföngin okkar voru boltar, bein úr kindum og brot úr leirtaui.  Svo voru stultur sem voru búnar til úr dósum og bandi.  Það var eftirminnilegt hve mikið fárviðri var á afmælisdaginn minn þegar ég var 9 eða 10 ára.  Pabbi lét okkur sitja í kjallaranum hjá beljunum því hann var svo hræddur um að þakið færi af húsinu.  Fárviðrið stóð samt bara í eina nótt og fram á næsta dag.  Það urðu miklar skemmdir hér á Eskifirði en þakið fór ekki af húsinu okkar en lítill skúr sem var fyrir ofan hús fauk burt.

 

Fermingin

Ég fermdist í Eskifjarðarkirkju og presturinn hét séra Haraldur og var frá Kolfreyju-stað í Fáskrúðsfirði.  Mig minnir að við höfum verið fjórtán sem fermdust.  Við þurftum að læra kverið og ýmsa sálma.  Í fermingagjöf fékk ég silfurkross, fáeinar krónur og silkislæðu.  Fyrir ferminguna fékk ég tvo kjóla.  Einn hvítan sem ég fermdist í og annan sem var rauðbrúnn með möttuðum rósum í sama lit, hann var kallaður eftirfermingarkjóll.  Ég fékk skó sem voru hvítir.  Tvær yngri systur mínar fermdust á eftir mér í hvíta kjólnum.  Það var ekki haldin veisla, bara gott kaffi fyrir fjölskylduna heima.  Það var ekkert tilstand.

 

Barnaskólinn

Ég gekk í Barnaskóla Eskifjarðar.  Þar voru kennarar Ragnar Þorsteinsson, Sigurbjörn Ketilsson, kona hans Hlíf Tryggvadóttir sem kenndi söng og Einarína Guðmundsdóttir sem kenndi sauma.  Það var ágætt í skólanum.  Mér fannst skemmtilegast að læra sögu og kristinfræði.  Í skólanum var kenndur lestur, stærð-fræði, íslenska, grasafræði, dýrafræði, kristinfræði, saga og landafræði.  Skólinn var yfirleitt fram að hádegi en stundum var handavinna eftir hádegi. Mig minnir að skólinn hafi byrjað í október og var fram í maí.  Ég man eftir strák í skólanum sem alltaf var að gera eitthvað að sér.  Einu sinni fór hann á klósettið og pissaði í dollu og kastaði dollunni út um gluggann út í garð.  Hann var skammaður mikið, hristur og læstur inni. 

- Til baka -