Eskfirsk yrkingaærsl

Ferskeytlan er Frónbúans

fyrsta barnaglingur

en verður seinna í höndum hans

hvöss sem byssustingur.

Þannig orti Andrés Björnsson um síðustu aldamót um kveðskaparlist íslendinga og þá einu íþrótt sem þeir einatt höfðu tíma og tækifæri til að iðka hversu illa sem áraði.  Eða eins og Jóhannes úr Kötlum lætur liggja að í ljóði sínu Rímþjóð, þá urðu vísurnar eftir því dýrar kveðnar sem harðindi hrjáðu Frónbúann meira.   Enda hefur það allt til þessa dags þótt álitsauki að geta hnoðað saman vísu.

Við Eskfirðingar getur lítt stært okkur af stórskáldum á bundið mál.  En margir hafa í tímans rás baukað við að banga saman vísu hér sem annars staðar á Íslandi.   Því er það staðreynd að margar vísur hafa orðið fleygar undir Hólmatindi og sumar jafnvel flogið víðar.  

Á ýmsu hefur gengið við að feðra þær því Eskfirðingar hafa verið ófúsir að gangast við þessum krógum sínum.   Samt hefur tekist að draga nokkra slíka bangara fram í dagsljósið.

Eitt þessara launskálda hét Brynjólfur Einarsson og flutti til Vestmannaeyja þar sem hann bjó lengst af ævinnar.   Hann var þekktur fyrir vísur sínar þó svo að hann færi leynt með þær.   Um þetta athæfi sitt sagði hann sjálfur.

 

Um vísur mínar helst er það að hafa í minni.

þær áttu við á einum stað

og einu sinni.

 

Sennilega er þetta einmitt samnefnari allra þessara vísna.   Flestar þeirra verða til í hita augnabliks, sumar fullar af gáska og gríni, aðrar klúrar og kjaftforar og enn aðrar fullar af geðvonsku og illkvittni.  En allar eru þær með orðtaki íslendingsins , sem þarf að nota stór orð um fegurð íslenska sumarsins og sterk orð og hvöss svo þau heyrist gegn um íslensk stórviðri.

Brynjólfur var lengst af sjómaður meðan hann var á Eskifirði og hefur eflaust kynnst vindstróknum sem stundum stendur út Reyðarfjörðinn svo langt basl er heim á Eskifjörð.  Í eitt slíkt skipti er sagt að hann ásamt Kristjáni Jakobssyni hafi sett saman þessa vísu:

 

Bágt er að standa bölvandi

á bárugandi veltandi

er norðan andar illvirði

úr eitruðu fjandans rassgati.

 

En samt er það svo að til að gera vísu sem ber nafn með rentu þarf fleira sem stór orð og rím.  Stundum þurfa jafnvel viðurkenndar reglur um vísnagerð að víkja ef andinn krefst því öllu skiptir að koma andartakinu til skila.    Eftirfarandi vísa  Brynjólfs  er frá Vestmanneyjum og er sagan sú að hann hafi mætt vini sínum, Sveinbirni að nafni, á götu, en kona Sveinbjarnar hafði þá nýlega eignast tvíbura.   Brynjólfur heilsaði og kastað fram þessari stöku.

 

Þú hefur eignast tvíbirni

þótti of lítið einbirni.

Þyrftir að eignast þríbirni

þá yrði lag á Sveinbirni.

 

Annar var sá maður sem margir Eskfirðingar minnast á þegar talað er um lausavísur hér á Eskifirði.  Þessi maður var Pétur Jónsson, venjulega kallaður Pétur skóari.   Oftast þóttu vísur hans þannig að ekki þótti sæmandi að hafa þær yfir nema úti í horni og þá helst í svarta myrkri.   En samt gengu þær manna á milli og vöktu hlátur og glott á andlitum samferðamannanna einkum þeirra sem ekki urðu fyrir barðinu á skáldskap Péturs.

Því miður kann ég allt of lítið af þessum vísum Péturs en pabbi minn kenndi mér lítið kvæði Péturs sem hann orti í orðastað annarra.   Þessu kvæði fylgir sú saga að Pétur var í vegavinnu uppi á Héraði. og meðal vinnufélaga hans voru Einar nokkur frá Möðrudal og Sigurður einn, nefndur Siggi spaði því hann var einhentur og með kló eða spaða í stað handar.   Sigga þessum fylgdi tík sem kölluð var Fluga og þótti hún þjófótt í meira lagi einkum á allt matarkyns.   Venjan var að vegavinnumenn hefðu með sér sitt eigið brauð að heiman og geymdu það gjarnan í skrínum eða kössum í skúrum sínum.

Eitt sinn er Einar ætlaði að fá sér brauðbita tók hann eftir því að annar endi brauðhleifsins var nagaður og kenndi hann tík Sigga um.   Af þessu spratt mikil rimma milli Einars og Sigga og orti Pétur í orðastað þeirra.  Pétur ók litlum vörubíl og sótti efni til vegagerðarinnar og segir sagan að hann hefði varpað fram vísu eftir hverja ferð þann daginn.

 

Hann Einar í Möðrudal eignaðist brauð

og átti það geymt úti í kassa.

En Fluga var þjófótt á þesskonar auð

en það átti Siggi að passa.

 

Þegar hann ætlaði að borða sitt brauð

búið var endann að naga

reiðin í Einari óðara sauð

,,Ég andskotans tíkina klaga.“

 

,,Önnur eins læti og óþverrabrek

ei vil ég bótalaust þola.“

..Heyrðu mig, Sigurður, hnullung ég tek

og hausinn á tíkinni mola.“

 

Sigurður ansar: ,,Á öllu ég finn

til ills er þinn spanaður kjaftur.“

,,Drepirðu tíkina, djöfullinn þinn

drep ég þig samstundis aftur.“

 

,, Þú skalt í tukthúsið þar til í haust

ef þrjóskast að borga mér skaðann.“

,,Látirðu ei allt þetta afskiptalaust

ég óðara rek í þig spaðann.“

 

,,Brauðið er alls ekki eyðilegt þitt.“

öskraði Siggi með krafti.

,,Þú veist ekki hót um það helvítið þitt

og haltu bara andskotans kjafti.“

 

Að lokum verður að nefna þann mann sem frægastur er af þessum vísnagerðarmönnum á Eskifirði.  Þessi maður hét Teitur Hartmann og var fæddur í Rauðasandshreppi fyrir vestan.  Hann flutti til Ameríku og var þar í fjögur ár.   Eftir að hann kom aftur heim vann við húsamálun og sem lyfjasveinn í apóteki.   Hann bjó hér fyrir austan í 20 ár og þá lengst af á Eskifirði, þar sem hann starfaði sem málari.   Frá Eskifirði flutti hann til Ísafjarðar og vann þar í lyfjaverslun til æviloka.

Teitur  hefur nokkra sérstæði meðal vísnagerðarmanna á Eskifirði því eftir hann liggur vísnakver.   Reyndar var einnig gefið út vísnakver Péturs skóara en þeir sem til þess þekktu segja gjarnan að það hafi verið ,,eftir að hann varð kristilegur“ og því þóttu þær vísur lítt spennandi.

Nokkrar vísur Teits Hartmanns hafa orðið landsfleygar og almenningseign eða ætli flestir kannist ekki við þessa vísu hans sem hann kvað um drykkju þeirra Halldórs Stefánssonar á Bjargi.

Heimskur maður hatar vín

hinir allir þjóra.

Bakkus elskar börnin sín

bæði Teit og Dóra.

 

Framhald á þessu er að finna í kveri Teits

 

Þó að lokist drengja dyr

dónum, sem að þjóra

enn er Bakkus, eins og fyrr

athvarf Teits og Dóra.

 

Þó að vilji drykkjur drótt

dæma heimsku stóra,

Bakkus hefur bestur þótt

bæði Teit og Dóra.

 

Ef á Teiti ekkert sér

og af er runnið Dóra

hér á jörðu ekkert er

eftir til að þjóra.

 

Flestar vísur Teits Hartmanns eru í þessum dúr því líkt og til dæmis Páli Ólafssyni og fleiri góðskáldum var honum vínflaskan hugstæð enda hefur  innihald slíkrar oft þau áhrif að auka flæði orða og hugmynda um stund.   En stundum getur drykkja haft óvæntar afleiðingar og í eitt skipti missti Teitur sjónar á veginum og deginum og féll kylliflatur í Grjótána en var draslað uppúr.   Þá varð Teiti þetta að orði.

 

Þetta höfuð, þungt sem blý

þræðir krókavegi

maður dettur ekki í

ána á hverjum degi.

 

Þegar hann var svo spurður að því hvort hann hefði nokkur slasað sig svaraði hann.

 

 Það er allt í þessu fína lagi.

Nema helst hvað höfuðið

hefur eins og komist við.

 

En eitthvað hefur hann lært af þessu því að hann sagði :

 

Flaskan verðu fótakefli

flestum, sem að hana tæma.

Vín er mannsins ofurefli

eftir sjálfum mér að dæma.

 

Að lokum get ég ekki stillt mig um að fara með Áramótabænina hans Teits Hartmanns þó það séu engar meiningar af minni hálfu sem fylgja henni.

 

Áramótabænin.

Á kyrrlátu gamlárskveldi

kraup ég og úthellti tárum,

ég þakkaði góðum guði

hans gjafir á liðnum árum

 

En svo var ég hræddur og hissa

ég hafði þá steingleymt því besta

í þessari þakkargjörð minni

en það var að minnast á presta.

 

Ég ætlaði úr þessu að bæta

á auga-lifandi bragði;

ég hóf upp mín augu ti himins

og hrópaði á drottinn og sagði:

 

,,Svo þakka é þér fyrir klerkinn“,

en þá mælti Herrann og brosti:

,,O-o það er nú lítið að þakka,

-fyrir þennan að minnsta kosti.

  

Og svona í blálokin þá eru eftirmæli Teits Hartmanns um Eskfirðinga og Reyðfirðinga.

 

Ekki blindar andans ljós

Eskifjarðarbúa

ef ég segði um þá hrós

yrði ég að ljúga

 

Um Reyðarfjörð ég ræði ei par

raun sem menning blótar

menn og skepnur myndast þar

merkilega ljótar.

 

Reyndar svaraði Pétur skóari þessu svona.

 

Sitt nú mokar sálarfjós

signor Teitur fíni.

Hann sem andans lætur ljós

loga á brennivíni.

 

- Til baka -