Lífshamingja mín

 

Á fögrum ágústdegi, þá haldið er af stað,

í stórum hóp sem glaður er og traustur.

Og efst í okkar huga er vitneskjan um það

að vera loksins nú á leiðinni austur.

 

Og nú skal verða gaman, því gleðin tekur völd

og brjóstbirtan er upp úr töskum tekin.

En hvar skyldum við verða er líða fer á kvöld

og ekki má hann klárast sjálfur lekinn.

 

Nú fagurt sólarlagið, það blasir okkur við

Í Egilsstaðaskógi verður dvalið.

Því þar er fjör oft mikið og þar er úrvalslið

og einnig er það vísast kvennavalið.

 

Og hafið það í huga, er sígur höfgi á brá

að koma sér þá tímanlega í tjöldin.

Því þar við látum rætast von okkar og þrá

og hverjir verða þá sem taka völdin.

 

Ég kynntist þarna stúlku, sem sat á bekk og beið

og blíðum augum beint hún á mig starði.

Ég bað hana að ganga með mér ofurlitla leið

og út við vorum komin fyrr en varði.

 

Og sú sem þarna birtist, varð lífshamingja mín.

Við saman höfum fetað margan stíginn.

Því þó ég hafi brugðist og drukkið mikið vín,

þá fyrirgaf hún oft hvað ég var lyginn.

 

Lag: Óli Fossberg

Texti: Óli Fossberg

 

- Til baka -