Bærinn minn

 

Sólardagur – sléttur fjörður

skartar himinn blár.

Tindur fagur – tryggur vörður

tígulegur, hár.

Morgunblærinn blíður strýkur

bæinn vekur undur blítt.

Góður dagur gleðiríkur

gefur öllum upp á nýtt:

vinnu næga og vinahug

víða má sjá dáð og dug

á Eskifirði í blíðum blæ,

byggðarlagi fögru út við ysta sæ.

 

Lifnar bærinn – lífið titrar

ljúfan snertir streng.

Merlar særinn – lækur sytrar,

sjá má stúlku og dreng.

Bærinn undir bröttum hlíðum,

býður skjól sitt sérhvern dag.

Hvergi má í heimi víðum

hlýrra finna sólarlag.

Andblæ mildan ætíð finn

umvefur mig kvöldroðinn,

á Eskifirði í blíðum blæ,

byggðarlagi fögru út við ysta sæ.

 

Lag: Óli Fossberg

Texti: Ellert Borgar

 

- Til baka -