Eskifjörður

 

Eskifjörður - æskubyggðin mín

innst í sálu greypt er myndin þín

hjá þér fyrst ég ljóma dagsins leit

lifði í þínu skjóli og fjalla reit,

Drottinn blessi byggð og lýð - blessi alla tíð.

 

Oft var keppt við lífsins hretin hörð

höpp og fár jafnt dynja um vora jörð

okkur gafst þú þrek og þrótt í raun

þannig unnust bestu sigurlaun,

Drottinn blessi byggð og lýð - blessi alla tíð.

 

Sókn var glæst á fengsæl fiskimið

fiskimanna kjarngott ólst þú lið

öllum stundum áttir þú til sanns

ítök bónda sjó - og fiskimanns,

Drottinn blessi byggð og lýð - blessi alla tíð.

 

Í dagsins önn og dásamlegt það er

að drottins auglit vakir yfir þér

til hans hafa þegnar þínir sótt

þrek og gleði bæði dag og nótt,

Drottinn blessi byggð og lýð - blessi alla tíð.

 

Vaxi mannlíf enn með dug og dyggð

drúpi farsæld þér mín kæra byggð

megir þú í framtíð eignast enn

atorku og sanna kristna menn,

Drottin blessi byggð og lýð - blessi alla tíð.

 

Texti: Árni Helgason

Lag: Þorvaldur Friðriksson

 

- Til baka -